Insidious Chapter 2 er framhald af Insidious 1 frá árinu 2010 en myndin segir okkur frá Lambert fjölskyldunni og undarlegri tengingu þeirra við heim hinna dauðu.
Í þessari seinni mynd er kafað dýpra í sögu fjölskylduföðursins Josh. Í æsku fór ákveðin vera að fylgja honum og reyna að taka yfir líkama hans en móðir hans kallaði til konu að nafni Elise sem hafði það að atvinnu að hrekja út illa anda og aðstoða skyggnt fólk við að lifa bæði í heimi hinna lifandi og dauðu.
Frábært framhald af góðri sögu
Yfirleitt tekst ekki að gera gott framhald af góðum hryllingsmyndum en það á svo sannarlega ekki við í þessu tilfelli. Mér finnst myndin sérlega velheppnuð og plottið í henni frábært. Myndin er hrikalega drungaleg og fær mann heldur betur til að bregða aftur og aftur.
Það sem ég tók sérstaklega eftir í myndinni var rauður litur og lýsing, sem er svo sem hægt að tengja við rauðu alræmdu hurðina sem kemur fyrir í fyrri myndinni. Oft hefur rauður einnig verið tengdur við geðveiki.
Leikstjórinn leikur sér með liti í þessari mynd til að kalla fram ákveðnar tilfinningar og virkar það fullkomnlega að mínu mati. Fjólublár er til dæmis sagður vera fyrirboði um að einhver muni deyja. Ef þú ert fyrir að láta hræða þig aðeins og ert í stuði fyrir flotta drauga og mjög flott drauga make-up (innblástur fyrir Halloween) þá mæli ég hiklaust með því að fara á þessa flottu hrollvekju.
Leikstjórinn James Wan nær sér í innblástur frá David Lynch
James Wan er klárlega hrifinn af hrollvekju og splatter myndum. Hann hefur tekið að sér að leikstýra þannig myndum undanfarin ár og má þar nefna SAW, Insidous 1 og The Conjuring.
Það kom mér á óvart að James sé þessa dagana að leikstýra The Fast and the Furious 7 en mér finnst að hann eigi að halda sig við hrollvekju- draugamyndir og spennu. James er að eigin sögn með mjög lágan sársaukaþröskuld og höndlar illa að sjá blóð. Það er frekar spes miðað við þær myndir sem að hann hefur tekið að sér að leikstýra.
James segist líta mikið upp til David Lynch en hann fékk mikinn innblástur frá honum þegar hann leikstýrði Saw. Þá er ítalski leikstjórinn Dario Argento einnig í miklu uppáhaldi hjá honum.
Kvikmyndavefurinn imdb.com gefur myndinni 7,0 í einkunn.
Leikstjórn: James Wan – Aðalleikarar: Patric Wilson (The Conjuring), Rose Byrne, Ty Simpkins, Lin Shaye og Barbara Hershey.
Hér má sjá sýnishorn úr myndinni Insidious Chapter 2.
[youtube]http://www.youtube.com/watch?v=fBbi4NeebAk[/youtube]Anna Brá Bjarnadóttir er fædd á því herrans ári 1986, sama ár og Gleðibankinn hóf raust sína í júró, sem er mögnuð tilviljun þar sem stúlkan er sjálf vel stæður Gleðibanki! Anna starfar sem skemmtanastjóri og dj á Loftinu og Lebowski Bar en er á sama tíma algjör græju gúrú og fíkill. Anna er útskrifuð af tæknibraut Kvikmyndaskóla Íslands og hefur m.a. starfað við fjölda auglýsinga og sjónvarpsþátta. Hún býr við Norðurmýrina með hundinum Tinna og kærastanum og kokkinum Jónasi.