Ég ætla að leyfa mér að fullyrða að Before…myndirnar séu ekki eins og neitt annað í kvikmyndaheiminum í dag.
Before Midnight, þriðja myndin af Before… myndaseríunni, var nýlega tekin til sýninga í Bíó Paradís og ég ákvað að skella mér á hana þar sem ég horfði fyrir stuttu á bæði Before Sunrise (1995) og Before Sunset (2004). Ég varð gjörsamlega heilluð af parinu Jesse og Celine og hversu snilldarlega þessar myndir eru skrifaðar. Það er alltaf smá stress að fara á framhaldsmyndir finnst mér því það er ávallt sú hætta að myndin sé léleg og ,,eyðileggji” þannig heiminn sem maður var búinn að búa til í kringum hinar myndirnar. En ég varð svo sannarlega ekki fyrir vonbrigðum með Before Midnight.
Myndin gerist á Grikklandi þar sem Jesse (Ethan Hawke) og Celine (Julie Delphy) eru stödd 9 árum eftir að við sáum þau seinast í París. Þau eru þar í boði rithöfundar sem bauð þeim að dveljast hjá sér í 6 vikur. Fyrri partur myndarinnar byggir á samskiptum Jesse og Julie við þann hóp,dætur þeirra tvær og við son Jesse sem er nú kominn á unglingsár. Í seinni part myndarinnar eru Jesse og Celine aftur tvö ein eins og í hinum myndunum. Enn og aftur eru þau stödd á götum evrópskrar borgar sem er aðeins bakgrunnur fyrir frábæran leik og brilliant samtöl sem eru svo hversdagsleg en samt svo frábærlega skrifuð að þau halda manni við efnið frá upphafi til enda. Þó að “töfrarnir” sem einkenna samband Jesse og Celine í fyrri tveimur myndunum séu að einhverju leyti horfnir eru aðrir töfrar að verki í þessari mynd. Þau eru ekki að hittast í fyrsta skipti og ekki að hittast i fyrsta skipti eftir langan aðskilnað heldur eru þau að vinna að því að halda við töfrunum sem leiddu þau saman í fyrsta skipti mitt í hversdagsleikanum.
Maður hefur oft heyrt fólk nefna af hverju það séu aldrei gerðar myndir um það hvað gerist eftir “the happily ever after” og Before Midnight er akkúrat sú mynd sem sýnir raunveruleikann á snilldarlegan hátt.
Ég get mælt heilshugar með myndinni Before Midnight við alla sem hafa gaman að kvikmyndum. Myndin hefur fengið einróma lof gagnrýnenda og er með einkunina 8.4 á IMDB.
[youtube]http://www.youtube.com/watch?v=euOJkb0U8vE[/youtube]Tinna hefur brennandi áhuga á næstum öllu en þó líklega mest á sjónvarpi og kvikmyndum, án þess þó að hafa nokkurt faglegt vit á hvorugu.
Hún er nemandi í mannfræði og starfar með náminu sem samfélagsmiðlaráðgjafi. Hún elskar allt sem kemur eldamennsku og bakstri við, og þá mest af öllu að baka íslenskar pönnukökur og að poppa örbylgjupopp. Markmið Tinnu í lífinu er að vera góð, láta gott af sér leiða og skemmta sér frábærlega á meðan.