Ég byrjaði að drekka kaffi á þessu ári þegar ég var að vinna á kaffihúsi en ég er 25 ára gömul svo það var ekki seinna vænna!
Eftir minn fyrsta cappuccino varð ekki aftur snúið, ég er orðinn mikill kaffisnobbari og öfunda mikið fólk sem stundar nám sitt í HR því það er svo heppið að hafa Te & Kaffi inní húsinu. Ég get nefninlega engan vegið látið ofan í mig uppáhellta kaffið í Hámu í HÍ.
Eftir að ég var komin á kaffibragðið var ég ekki lengi að komast að því hvar ég fæ gott kaffi í höfuðborginni. Athugaðu að þó að kaffið sé gott á einum stað þá er maturinn eða stemninginn kannski ekki endilega sambærilegt kaffinu. Þetta verður nefninlega að haldast í hendur sjáið til…
1. Uppsalir
Uppsalir eru í Aðalstræti 16 innan af Hótel Reykjavík Centrum. Ég alveg eeeelska að vera þarna, svo þægileg sætin og sófarnir. Á veturna er svo kveikt upp í arninum og ef maður situr við gluggann er hægt að sjá út á torgið þar sem tré er tendrað með ljósaseríu.
Á Uppsölum er mjög gott kaffi frá Lavazza og girnilegur og fjölbreyttur matseðill. Hugguleg stemning og tónlist, alveg frábært starfsfólk og auðvitað frítt net. Það er líka algjör snilld að læra þarna því borðin eru í alveg passlegri hæð. Svo skemmir ekki fyrir að alla daga frá 17-19 er happy hour á léttvíni og bjór!
2. Babalú
Þessi krúttlegi staður er á Skólavörðustíg og hefur verið í nokkur ár. Babalú mjög skemmtilegur staður. Léttur matseðill og þarna er heitt eplapæ sem er “to die for”! “Pæ-ið” er alveg ómótstæðilegt og þetta er helsta ástæðan fyrir því að ég fer þangað.
Mjög vinalegt starfsfólk sem er þó flest enskumælandi en það kunna nú flestir Íslendingar ensku svo það sakar ekki endilega. Á Babalú er líka útisvæði í skjóli þar sem er æðislegt að sitja á sumrin og fá sér góðan kaffibolla. Það eru tvær hæðir á þessum stað og mjög funky klósett. Eflaust frítt net en ég hef einhvern veginn ekkert verið í símanum þegar ég er þarna.
3. Stofan
Stofan er staðsett í sama húsnæði og Fríða frænka var til margra, margra ára. Staðurinn er á tveimur hæðum og er alveg ofboðslega skemmtilega innréttaður með antik sófasettum, svartar og hvítar flísar á gólfinu og múraðir veggir. Mjög gott kaffi, ekki viss hvaða tegund það er samt, og mjög góðar kökur! Ótrúlega heimilislegur staður og mjög “hip” en samt kósý stemning. Á Stofunni er líka hægt að vera á netinu og vafra um undraheima Alnetsins meðan maður sötrar ljúfan kaffibolla.
Endilega prófið eitt af þessum kaffihúsum næst þegar þið viljið gera ykkur dagamun og kíkja niður í bæ.
Krabbastelpan Eva Rós er fædd árið 1989, á tvö börn og góðan mann. Eva er mikill áhugamaður um hverskyns gamanmál en einnig uppeldi, ferðalög, heilsu, líkamsrækt, vín, matreiðslu, veisluhöld, kokteilagerð og góða þjónustu. Mottó Evu í lífinu er einfalt: Hver er sinnar gæfu smiður