“Ég stend fyrir söfnun á Karolina Fund svo ég geti gefið út bökunarbibilíuna mína sem verður stútfull af trylltum uppskriftum, sykursætum ráðum og girnilegum fróðleik,” segir Lilja Katrín Gunnarsdóttir sem heldur úti bökunarblogginu Blaka.
Þar einbeitir hún sér að sérstöku þema í hverjum mánuði og segir bloggreglurnar einfaldar: fullt af ást, fullt af sykri og fullt af konfekti fyrir bæði augu og munn.
“Ég er búin að safna rúmlega 1500 Evrum af 4500 Evra takmarki mínu,” segir Lilja Katrín og bætir við að hún sé óbærileg að eigin sögn þessa dagana, hendandi út betlpóstum út um allar trissur til að ná takmarkinu. Það eru nefnilega bara fjórir dagar eftir af söfnuninni.
“Á Karolina Fund geta áhugasamir tryggt sér bókina á spottprís, eða tæplega 3000 krónur. Svo er það kökuboðið. Einstakt kökuboð sem er falt fyrir 1000 Evrur, eða 130.000 krónur. Ef einhver styrkir mig um þá upphæð fær sá hinn sami mig heim til sín (vonandi verður það ekki vandræðalegt) og ég töfra fram 6-8 sortir fyrir viðkomandi með öllu hráefni inniföldu. Ef það var ekki nóg þá fær sú/sá hinn sami köku skírða í höfuðið á sér í bókinni! Tækifæri sem kemur bara einu sinni á lífsleiðinni, svei mér þá! Aldrei að vita nema ég hendi nokkrum bakstursbröndurum í kaupbæti. Hér er einn góður: Af hverju var kakan grjóthörð? Af því að þetta var marmarakaka! (ég rata út).”
Þó stutt sé eftir af söfnuninni er Lilja Katrín bjartsýn. “Ég ætla ég að berjast fyrir þessari kökubók minni fram í síðustu bollakökusort!”
Svo er bara að styrkja stelpuna en þú finnur hana með því að smella hér á Karólinafund.
Fjölbreytileiki og góður fílíngur er mottó Pjattsins. Engar smellabeitur, bara endalaust af góðu efni, blogg, pistlar, uppskriftir, heilræði, heilsutips, menning, bækur, andlega hliðin og allskonar, allskonar enda höfum við verið í loftinu síðan 2009.