Berglind Sigmarsdóttir, höfundur bókanna Heilsuréttir fjölskyldunnar og Nýir Heilsuréttir fjölskyldunnar er mikil áhugakona um heilsu og heilsumenningu.
Í þessu skemmtilega heilsuviðtali við Pjattið segir hún okkur frá neysluvenjum sínum og gefur meðal annars uppskrift að girnilegu döðlubrauði.
Hvað gerir þú helst til að halda góðri heilsu?
Ég hugsa vel um það sem ég borða og hreyfi mig reglulega. Hef reyndar komist að því að fólk leggur misjafnan skilning í það hvað sé hollt og margir telja sig borða hollari mat en það í raun gerir. Ef ég hefði verið spurð að þessu fyrir 10 árum hefði ég örugglega svarað eins, borða hollt en var samt þá að borða allt öðruvísi mat. En það sem ég legg áherslu á er að borða næringarríkan og hreinan mat. Reyni að elda allan mat frá grunni eins og ég get og kaupa lítið sem ekkert tilbúið. Það finnst mér að borða hollt í dag. Þetta felur í sér undirbúning og skipulag sem hefur komist upp í vana og er ekki eins mikið mál og fólk heldur þegar það sér möndlurnar í bleyti hjá mér. Ég kaupi ekki inn hefðbundið samlokubrauð og það kallar á það að ég verð að baka brauð, hrökkbrauð, bananabrauð osfrv. til að eiga í millimál fyrir utan ávexti, grænmeti osfrv. Hér eru líka fjögur börn á heimilinu, allir sísvangir enda að stækka og þroskast svo það þarf að vera eitthvað til í staðinn fyrir kex og brauð.
Hvað hreyfirðu þig oft í viku og hvernig?
Ég fer í líkamræktarstöð þrisvar í viku í hádegispúl sem er stöðvaþjálfun og líka í Tabata. Svo fer ég í jóga tvö kvöld í viku. Ég bý í Vestmannaeyjum sem er mikil útvistarparadís og hleyp stundum inn í Herjólfsdal og labba upp á Dalfjall. Það er jafn gott fyrir líkamann og sálina. Þar sem Eyjan er ekki svo stór hefur maður oft tækifæri til þess að fara gangandi að sækja litlu strákana á leikskólann og leyfa þeim að labba upp á veggjum og stökkva fram af grindverkum. Mér finnst mikið frelsi felast í þessu, að þurfa ekki alltaf að fara allt á bíl og hreyfingin verður því meiri.
Hverju finnst þér auðvelt að sleppa og hvað gætirðu aldrei gefið upp á bátinn?
Það er ekki auðvelt að sleppa einhverju sem maður er búinn að venja sig á og jafnvel líkami manns öskrar á að fá því hann er vanur sínum skammti t.d. af sykri osfrv. En með aga og breytingum á venjum tekst manni að losa líkamann undan þessu og eftir það er þetta ekkert mál. Mig langar t.d. ekki í nammi og gúmmí finnst mér bara afar óspennandi. Ég fæ mér alveg kökur í boðum og panta mér syndsamlegan eftirrétt á flottu veitingahúsi en ekki oft. Ég bý frekar til hrákökur eða pönnukökur sem við fyllum af ávöxtum og slíku. Eitthvað sem er gott en er samt líka næringarríkt og gefur manni eitthvað annað en bara gott bragð. Eitt sem ég neyta mér ekki um, a.m.k. að svo stöddu er góður kaffibolli. Ég reyni að drekka ekki meira en 1-2 bolla á dag, en ef góð vinkona dettur inn um dyrnar og þarf að ræða daglegt amstur spái ég ekki í það hvort ég sé búin með kaffibolla dagsins.
Hvað færðu þér í morgunmat?
Ég bý til möndlumjólk nokkrum sinnum í viku, oftast virka daga og geri úr henni sjeik fyrir okkur öll á morgnana, hef í honum góða fitu eins og kókosolíu, ávexti, grænmeti, chia fræ misjafnt hverju sinni. Stundum er ég búin að búa til jógúrt úr geitamjólkinni sem við vinkonurnar erum að flytja inn og það er æði með múslí, aðra daga er það gamli góði hafragrauturinn. Tek inn OMEGA 3, D-vítamín og fjölvítamín
En á milli mála?
Ég baka hrökkbrauð, gróft speltbrauð (döðlubrauðið í bókinni), hveitilaust bananabrauð og hveitilaust kryddbrauð svona til skiptis og á þetta með kaffinu sem millimál með ávöxtum og grænmeti. Stundum á kvöldin hendi ég þurrefnunum sem eiga að fara í þetta saman í skál og þá um morguninn er einfalt að kveikja á ofninum og setja eggin, olíuna eða hvað það er út í og skutla inn í ofn.
Geturðu gefið okkur eina góða og einfalda uppskrift að einhverju heilsusamlegu (má vera hvað sem er).
Af því við erum að tala um millimál get ég gefið ykkur uppskriftina að döðlubrauðinu sem er í bókinni:
- 4 dl fínt spelthveiti (eða gróft)
- 2 dl tröllahafrar + 1 msk. yfir í lokin
- 1 dl sólblómafræ
- 1 dl graskersfræ
- ½ dl möluð hörfræ
- ½ dl sesamfræ
- 5 döðlur, skornar í litla bita
- 1 tsk. sjávarsalt
- 2 tsk. vínsteinslyftiduft
- 4 dl AB mjólk eða 2½ dl soðið vatn
Aðferð:
1. Hitið ofninn í 180 gráður.
2. Blandið öllum þurrefnum saman og hrærið.
3. Bætið döðlum við og hrærið.
4. Blandið vökva saman við og hrærið lítið en passið að ekki séu þurrir kögglar inn á mili.
5. Setjið smjörpappír í jólaköku-/sandkökuform og hellið deiginu í formið, stráið 1 msk. af haframjöli yfir. Bakið í miðjum ofni í um 50 mínútur.
Skiptir máli að vera töff í ræktinni? Áttu þér uppáhalds línu í íþróttafötum?
Held nú að aðalatriðið sé að líða vel í fötunum og geta gert æfingarnar án þess að fötin séu að hefta mann eða þvælast fyrir.
Byrja ekki allir á stuttermabolnum sem er til á inni í skáp frá sumrinu og svo þegar fólk er komið í gott form fer það að dressa sig meira upp. Ef fólk er óánægt með líkamann og hefur ekki verið að hreyfa sig þá er kannski frekar ólíklegt að það mæti fyrsta daginn í Stellu McCartney Adidas settinu, þó að það væri auðvitað frábær byrjun heheh. Það er a.m.k. þannig með mig eftir því sem ég er í betra formi langar mig að kaupa mér flottari íþróttaföt. En nei ég á ekkert uppáhalds merki eða línu.
Nefndu eina konu eða karl sem þér finnst hreint afbragð þegar kemur að heilsusamlegum lífsstíl.
Ég ætla að nefna Gyðu Arnórsdóttur vinkonu mína sem er svakalega duglegur crossfitari og endalaust dugleg að útbúa sér og sínum hollan og góðan mat. Hún hleypur maraþon á meðan ég er ennþá að reima á mig skóna.
Hvort ertu meira fyrir lífrænan lífsstíl eða prótein og lyftingar?
Ég er meira fyrir lífrænan lífsstíl. Hollt mataræði fyrir mér snýst ekki fyrst og fremst um að vera grönn heldur um næringuna sem maturinn gefur og að hann sé helst aukefnalaus. En mér finnst lyftingar rosalega skemmtilegar, sérstaklega þessar ólympísku lyftingar sem ég kynntist í crossfit.
Ertu með einhver ný markmið þegar kemur að heilsunni?
Já ég hef verið dugleg að hugsa um matinn og hreyfinguna en setti mér nýleg ný markmið að hugsa meira um andlegu heilsuna, reyna að njóta þess að vera í núinu og er því nýbyrjuð í jóga sem er alveg hreint dásamlegt. Það er alltaf mjög mikið að gerast í kringum mig. Heimilið mitt er oft eins og umferðarmiðstöð sem að mér finnst frábært, ég vil hafa mikið líf og fjör í kringum mig. En það sem mig hefur kannski skort er þessi rólegi tími fyrir mig og jóga er alveg fullkomið í þeim tilgangi auk þesshvað það gerir líkamanum gott að teygja vel á. Ég hef örugglega verið einhver yogi í fyrralífi. Ég stóð mikið á haus sem krakki, fannst það svo góð tilfinning að finna blóðið streyma úr fótum og niður í haus og var mikið í fimleikum svo þetta er alveg fyrir mig.
Fjölbreytileiki og góður fílíngur er mottó Pjattsins. Engar smellabeitur, bara endalaust af góðu efni, blogg, pistlar, uppskriftir, heilræði, heilsutips, menning, bækur, andlega hliðin og allskonar, allskonar enda höfum við verið í loftinu síðan 2009.