Í lönsinum í dag rabbaði ég við tvær ungar og skemmtilegar konur. Við vorum að velta fyrir okkur túristabransanum og hvernig hann hefur breytt landslagi okkar og menningu á hreint ótrúlega stuttum tíma.
Vinafólk mitt, sem hefur alla tíð alið manninn í 101 Reykjavík, segir ekkert gaman að rölta um miðbæinn lengur. Sjálf hef ég frá unglingsaldri búið í 101 þó ég hafi fyrir 10 árum flutt út á nes enda orðin mamma og hvergi betra að vera með krakka en á blessuðu nesinu. En ég man hvernig þetta var hér áður í 101. Þetta var eins og krúttlegt þorp.
Maður gekk eða hjólaði daglega upp og niður Laugaveginn og kinkaði kolli til þeirra sem maður kannaðist við, þeirra sem maður þekkti og þeirra sem maður kannaðist við, – en vissi ekkert hvernig maður þekkti. Það voru margir, – en þetta var samt gaman. Þetta var stemmning.
Nú er miðborgin gerbreytt.
Miðborgarbúarnir eru orðnir að huldufólki sem fer um á öðrum tímum og hittist annarsstaðar. Helst í hliðargötum. Þau forðast Laugaveginn þar sem allt er á uppsprengdu verði og fátt annað að fá en lopapeysur og lundastyttur.
Ég man hvað mér brá þegar ég fór á Sólon fyrir um þremur árum að hitta vinkonu. Þá varð svona moment of clarity eins og alkarnir kalla það þegar þeir fatta að þeir eru alkar.
Þetta var um miðjan febrúar, algerlega off season. Eða svo hélt ég, en mér skjátlaðist. Staðurinn var nefnilega trooooðfullur af túristum og nokkrir biðu eftir borði. Við vorum EINU Íslendingarnir á staðnum. Þá rann það upp fyrir mér að Reykjavík var offisjallí orðin BENIDORM NORÐURSINS og þó víðar væri leitað. Og nú er þetta orðið vel útbreitt. Ég var á Selfossi síðustu helgi og þar voru búðir merktar á ensku, eins og á Benidorm, svo að útlendingurinn rataði nú sína leið í kartöfluflögurnar og pilsnerinn.
Önnur stelpan í hádeginu minntist til dæmis á hvernig túristamenningin er búin að eyðileggja fyrir okkur Íslendingum að fara út að borða og þar tók ég heilshugar undir! Það er ekkert gaman að dressa sig upp til að fara út að borða með lið í North Face göllum á næsta borði. Bakpokana sína upp við stólana. Sandblásið í framan eftir einhverja fjallaferð að henda í sig nautasteik á hálfvirði miðað við þeirra gengi.
Ég skil ekki af hverju Íslenskir veitingamenn, sem vilja láta taka sig alvarlega, setja ekki dress kód á staðina sína. Líkt og önnur benti á þarna í hádeginu, á veitingastöðum á Benidorm er oft að finna skilti þar sem fólk er beðið um að vera almenninlega til fara á stöðunum. Ekki á stuttbuxum, flip-flops og bikinítopp.
Hér mættu vera skilti sem bæðu blessaða túristana að mæta ekki í pollagallanum á fína veitingastaðinn. Vinsamleg tilmæli. Svona til að gera ekki lítið úr stemmningunni sem við hin erum að reyna að upplifa.
Á hinn bóginn verð ég að segja að þessi túrismi hefur líka haft jákvæð áhrif sem kom mér nokkuð á óvart. Ég reikna nefnilega með að í framtíðinni eigi kaffihús og barir, utan miðborgarinnar, eftir að blómstra talsvert betur þegar fram líða stundir.
Enginn sá til dæmis fyrir að Kaffi Vest næði slíkum vinsældum sem raun bar vitni. Við virðumst alveg til í kósý staði sem eru nær heimilum okkar en að bíða svekkt í röð fyrir aftan 25 túrista í pollagöllum á veitingastöðum og kaffihúsum niður í bæ. Hvað er líka betra en að vera svolítið hífaður og ganga heim?! (svo ég vitni nú í tvo dægurlagatexta í senn).
Við miðaldra vesturbæjarrotturnar kunnum vel að meta slíkt, og það sama hlýtur að gilda fyrir glaðar bjór -og víndrekkandi rottur í Grafarvogi og Garðabæ. Í flestum erlendum borgum er það auðvitað alþekkt að heimamenn sækja ekki sömu staði og ferðamenn og maður telst ægilega heppinn að finna uppáhalds veitingastaði heimamanna sem allir hinir túristarnir vita ekki af. Staði sem eru “lókal” eins og það kallast.
Þar sem miðborg Reykjavíkur er smátt og smátt að breytast í eitthvað sem minnir á víkinga-lopapeysu-og-lunda-stereótýpu-bjork-hipstera-bárujárns-skemmtigarð í boði Disney þá er ekki óeðlilegt að heimamenn reyni að finna sér góða felustaði til að rækta áfram menningu sína og stemmningu.
Það væri þó þjóðráð í þessu öllu ef veitingamenn í 101 myndu setja túristakrúttunum smá mörk og biðja þá um að dubba sig aðeins upp eins og við hin gerum. Ekki koma í pollagalla á Grillið. Vertu spari.
When in Rome, do as the Romans. When in Reykjavik do as the Reykjavikings.
Ég er af X-kynslóð, elska 70’s tónlist, finnst gott að fara í sund á kvöldin og á erfitt með arfa i görðum. Kýs fjölbreyti í lífið. Kann eina Eminem plötu utanað. Hef thing fyrir Marilyn Monroe, áhuga á feminisma og svona sitthvað fleira.