Pjattrófunum barst þetta skemmtilega (en jafnframt agalega) lesendabréf. Við finnum til með þér vinkona!
Ég er ein af mörgum mæðrum í fullri vinnu með þrjú börn sem hlakka allt vorið til sumarfrísins.
Í sumarfríinu áætla ég að gera allt sem ég geri ekki vanalega: Ferðast um landið, slappa af í sólinni, heimsækja vini, rölta um í miðbænum og njóta lífsins en ég virðist gleyma því hvert ár hvað ég eyði fríinu mínu mest megnis í að gera: Að hugsa um börnin!
Auðvitað er yndislegt að geta eytt tíma með börnum sínum, farið í sund, fjöruferðir, útilegur, sumarbústaði, húsdýragarðinn ofl en það verður að taka með í reikninginn að þau eru í fríi líka.
Maður losnar ekki við þau í leikskóla og skóla og á milli þess sem maður gerir með þeim skemmtilega hluti þarf maður að sjá um morgunmat, hádegismat, kaffi og kvöldmat, ganga frá eftir máltíðirnar, pakka niður fyrir ferðalög, ganga frá eftir þau, þvo þvott, taka til, biðja þau að taka til, nöldra skamma og hlusta á kvartanir, kvein og rifrildi.
Hversu oft á dag heyrir maður “Ég er svöng/svangur!” jafnvel þegar maður er nýbúinn að ganga frá eftir síðsutu máltíð, hversu mikið er hægt að borða? “Hvenær förum við í suuund?”, “Hvað gerum við eftir sund”, “Megum við fá ís/pylsu/ nammi?”, “Er kósýkvöld í kvöld?”….það rignir spurningum allan daginn, alla daga…
Þegar tvær vikur eru liðnar af sumarfríinu er mig farið að hlakka til að fara aftur að vinna og fá smá frið eða er að íhuga að skilja við makann og fá sameiginlegt forræði svo ég geti einhvern tíma slakað á. (Það er bilun en hey.. maður er orðinn nokkuð örvæntingarfullur).
Það stoppaði mig kunningjakona í verslun um daginn og spurði mig hvenær ég ætlaði eiginlega að skrifa hlutina eins og þeir eru og hætta vera svona helvíti jákvæð því hún sagðist vera verða geðveik.
Hún væri heima með 2 lítil börn í FRÍI og langaði stundum bara til að leggjast í gólfið, öskra og hárreita sig eins og börnin gera í frekjuköstunum sínum. Ég held að við sem eigum fleiri en eitt barn þekkjum tilfinninguna og það eina sem við huggum okkur við er hvað þau bræða hjartað þegar þau sýna sínar betri hliðar, eitt knús og “Mamma Aaaaa” fær mig amk. til að gleyma klukkustundar löngu frekjukastinu sem á undan er gengið
En hvað er til ráða?
Hvernig geta foreldrar notið frísins og fengið líka smá afslöppun? Ég hef ekki fundið lausnina, aðallega látið mig dreyma um að einhver annar tæki að sér öll leiðinlegu heimilisverkin og að ömmur og afar tækju börnin svona eins og eina, tvær helgar svo við foreldrarnir fengjum smá frið og gætum jafnvel farið í rómantíska helgarferð út á land.
Allar mæður þarna úti sem eruð að gefast upp á fríinu, þið eruð ekki einar, endilega ef þið hafið fundið lausn til að njóta betur “frísins” deilið! Ég bíð spennt inni á Facebook síðu Pjattrófanna.
Fjölbreytileiki og góður fílíngur er mottó Pjattsins. Engar smellabeitur, bara endalaust af góðu efni, blogg, pistlar, uppskriftir, heilræði, heilsutips, menning, bækur, andlega hliðin og allskonar, allskonar enda höfum við verið í loftinu síðan 2009.