Svo lengi sem ég man hef ég velt fyrir mér hugtakinu “sálufélagi”.
Algengasta skilgreining á sálufélaga er:
- Aðili sem maður finnur sterka nánast yfirnáttúrulega og óútskýranlega tengingu við
- Þegar maður hittir manneskju sem manni finnst að maður hafi alltaf þekkt þó maður sé að hitta hann/hana í fyrsta sinn
- Manneskja sem maður getur talað um allt við, sem skilur mann, hugsar svipað, hefur sömu áhugamál, skoðanir og smekk.
Ég hef rætt þetta hugtak við vinkonur mínar, sumar hafa upplifað þessa tilfinningu, aðrar ekki og ein telur sig hafa upplifað þetta oft.
Sjálf hef ég upplifað þetta tvisvar, þegar ég hitti bestu vinkonu mína og þegar ég hitti HANN. Upplifunin var svipuð en samt ólík þar sem annað er vinasamband og hitt ástarsamband.
Þegar við vinkona mín hittumst leið okkur eins og við værum tviburasystur sem hefðum verið aðskildar við fæðingu. Við skildum hvor aðra, gátum talað saman um allt, höfðum sama tónlistarsmekk, drauma og skoðanir. Okkur hafði báðum fundist eins og við pössuðum ekki almennilega inn í líf okkar, eins og það væri eitthvað mikið meira og stærra en okkar litli heimur sem vinir okkar virtust sáttir við, annað fólk sem við ættum að vera umgangast. Það gerðum við, fórum í ævintýraleit, þroskuðumst saman, stóðum saman gegnum þykkt og þunnt, studdum hvor aðra og leyfðum engum að koma upp á milli okkar, já og gerum enn.
Hann var ekki eins og hann ‘átti’ að vera
En þegar ég hitti HANN, sálufélaga minn þá voru það skringileg blanda af vonbrigðum og ofboðslegri hamingju. Ég man að ég sá honum rétt bregða fyrir og fékk sting í hjartað og hugsaði ” Þarna er HANN!” og næsta sem ég hugsaði var “Ó nei, hann er alveg á röngum stað”. Í næstu andrá hugsaði ég að ég hlyti að vera eitthvað biluð, afhverju “ímyndaði” ég mér að ég þekkti þennan strák sem ég hafði ekki einu sinni séð almennilega framan í, en það var eitthvað, ég bara varð að tala við hann og þá kom vinkona mín með hann til mín og kynnti hann fyrir mér því hann hafði séð mig og heimtað það.
Hann hafði fundið fyrir því sama, ólýsanlegri þrá til að kynnast mér og vera með mér en hann var alls ekki eins og ég hafði ímyndað mér að HANN myndi vera, fötin hans, hárgreiðsla og taktar voru allt of töffaralegir fyrir minn smekk og ég lét eins og ég hefði engan áhuga og væri bara að tala við hann til að vera kurteis, ég gaf ekkert af mér en inni í mér langaði mig að taka höndina hans og sleppa aldrei aftur, ég var búin að finna HANN – en hann átti bara að vera allt öðruvísi.
Til að gera langa sögu stutta, þá gekk hann á eftir mér þangað til ég gaf undan fyrir þessum tilfinningum og lét öll rök sem vind um eyru þjóta. Við vorum eitt, við gátum talað endalaust um allt, hlustað á tónlist, látið okkur dreyma og gátum aldrei aftur ímyndað okkur lífið án hvors annars, þó við værum ung vorum við viss um að við myndum vera saman að eilífu, eiga fjölskyldu og frama saman.
Ævintýrið endaði en tengingin ekki
Þrátt fyrir þessa tengingu og ofboðslegu ást þá entist sambandið okkar ekki. Lífið án hans var erfitt, ég saknaði hans svo ofboðslega í nokkur ár á eftir, samt varð ég ástfangin og fór í önnur sambönd en það var ekki HANN og þó hann væri algjörlega rangur fyrir mig í þessu lífi þá var tengingin svo sterk hjá okkur að eitt símtal eða fréttir frá honum brutu mig eins og eldspýtu sama hvað ég taldi mig ánægða í lífinu. Það var og er eins hjá honum. Makar okkar hafa öfundað þetta samband og við höfum forðast hvort annað því þegar við hittumst þá viljum við ekki skiljast að aftur. Ég get ekki lýst þessarri tilfinningu því þetta er ekki eins og að vera ástfangin. Mig langar samt ekki að vera með honum og sé ekki framtíð með honum. Ég er ástfangin af manninum mínum og vil vera með honum. En tengingin við HANN er þannig að ég veit hvenær ég er að fara rekast á hann, eins og ég fái hugboð nokkrum klukkutímum eða mínútum áður en ég hitti hann, samt hittumst við stundum ekki í heilt ár.
En HANN er sálufélagi minn. Hann er maðurinn sem mig langar að hringja í þegar eitthvað amar að, sem mig langar að tala við um allt og sem ég óska oft að sé með mér á sérstökum stundum. Þegar ég upplifi töfra og fegurð náttúrunnar eða fer á æðislega tónleika, þá vildi ég að hann væri með mér að upplifa það líka.
Það að vera ástfangin af einum manni og eiga annan sem sálufélaga er mjög ruglingslegt og í raun óréttlátt gagnvart makanum sem manni gremst þegar hann skilur mann ekki eins og sálufélaginn gerir. Mín upplifun er sú að þó það sé blessun að hitta sálufélaga, (hvað þá tvo) þá er ofboðslega erfitt að sætta sig við að hann passar ekki við mann í þessu lífi og maður þarf bara að vona að sambandið takist betur upp í því næsta.
Nú vona ég að margir lesendur viti hvað ég er að tala um, en eflaust eru margir vantrúa, finnst allt tal um sálufélaga vera eitthvað húmbúkk. Bellu sem hér skrifar hefði eflaust fundist það líka ef hún hefði ekki upplifað þetta tvisvar.
Bella Baldurs hefur mikinn áhuga á persónulegum þroska, samskiptum, samböndum, ástarmálum, deitmálum og kynlífi.
Hún byrjar hvern dag á núvitundaræfingu áður en hún rúllar sér sígarettu og hellir upp á tvöfaldan espresso.