Eigum við að gifta okkur? spurði hann og ég svaraði já já. Rómantíkin alveg í fyrirrúmi……eða svona hér um bil, ekki það að eiginmaðurinn þurfi að vera með blómvendi á hverjum degi, ég veit hversu mikið hann elskar mig og hann veit hvað ég elska hann mikið.
Hvernig er svo að vera gift?
Umm já þú meinar…..bara eins og að vera í sambandi eða ennþá trúlofuð, svo sem enginn gríðarlegur munur en það er samt sem áður þessi notalega öryggistilfinning sem fylgir því að vita að maður er giftur, ég get eiginlega ekki lýst því, ég veit bara að ég er örugg og hann er það líka ef að eitthvað kemur upp á þegar maður er með börn og bú og allt sem því fylgir.
Það er full vinna að vera kærasta/unnusta/eiginkona, aldrei lognmolla hjá manni, sérstaklega með börnin. Þessar elskur þurfa sinn skerf af athygli á daginn (ég tala nú ekki um vökunæturnar) og eiginmaðurinn fær kannski ekki mestu athyglina þegar kvölda kemur. Skellt í kósý mynd og viti menn kellan er steinsofnuð á sófanum eftir hálftíma og pirrar síðan kallinn með spurningum daginn eftir um myndina, honum til mikillar “gleði” (eða þannig).
Stefnumót – heima
“Date night” er snilldarhugmynd frá kananum (en ekki hvað), sniðug leið til þess að hita aðeins í kolunum. Þá er lagt extra mikið í kvöldmatinn (eða maturinn jafnvel pantaður)…
…börnin sett snemma í rúmið og já þá er líka passað sig á því að sofna ekki yfir imbanum. En sjáðu til, eiginkonan er líka gíruð upp fyrir kvöldið því að deitið er á dagskránni, jafnvel bara spennt allan daginn yfir herlegheitunum og búin að gera sig sæta og fína.
Það getur verið voða þægilegt að vera bara fastur í sama farinu þegar hringurinn er kominn á fingurinn en það er um að gera að vera ferskur og koma með nýjar hugmyndir og skemmtilegheit í sambandið/hjónabandið. Þó án þess að kaffæra makann gersamlega og vera yfir honum alveg 24/7!
Hlustið á hvort annað og virðið skoðanir og hugsanir makans því að þessi elska sem þú giftist er ævifélagi þinn og þinn besti vinur sem þú getur trúað fyrir öllu og vill ganga í gegnum súrt og sætt með þér.
Það er gott að vera elskaður og elska og yndislegt að verða meira og meira hrifin af eiginmanninum með hverju árinu sem líður, já hjónabandið og fjölskyldan er bara nokkuð skemmtilegt líf með nýjum ákorunum á hverjum degi. En þetta kallar á vinnu og alúð… munum það.
Bella Baldurs hefur mikinn áhuga á persónulegum þroska, samskiptum, samböndum, ástarmálum, deitmálum og kynlífi.
Hún byrjar hvern dag á núvitundaræfingu áður en hún rúllar sér sígarettu og hellir upp á tvöfaldan espresso.