Ég á vinkonu sem var með röngum manni og þekki reyndar fleiri en hana sem eiga enn ranga menn…
Nú langar mig að rekja sögu hennar því mér finnst mikilvægt að deila henni og reyna að ná til fleiri kvenna í sömu stöðu, því lífið er bara allt of stutt til að eyða því með rangri manneskju!
Köllum vinkonuna Dísu og manninn Hannes.
Þegar Dísa og Hannes kynntust voru þau bæði á fertugsaldri og fráskilin, hann átti þrjú börn með þremur konum og hún átti eitt barn og þráði ekkert frekar en fleiri börn og fjölskyldu en Hannes vildi ekki fleiri börn og ekki ‘alvarlegt samband’.
Dísa hinsvegar hélt að ástin gæti breytt Hannesi og hélt áfram að hitta hann þó hann vildi ekki vera partur af hennar lífi nema að litlu leyti; hann vildi ekki kynnast barni hennar eða gista heima hjá henni svo ástarfundir þeirra áttu sér stað á kvöldin þegar barnið var sofandi eða aðra hverja helgi þegar barnið var hjá pabba sínum, svona gekk það í 2 ár.
Allir héldu að hann væri einhleypur
Dísa taldi þau vera ástfangin og talaði um Hannes sem kærasta sinn og bauð honum alltaf með í öll boð og veislur en hann reyndi að forðast að koma með örfáum undantekningum. Hinsvegar bauð Hannes Dísu aldrei með sér í veislur eða neitt tengt vinnunni. Hún hitti aðeins karlkyns vini hans en kynntist þeim lítið. Þau fóru aldrei í boð til annarra para og það tók hana margra mánaða nöldur að fá að hitta foreldra hans í kaffi.
Nú var svo komið að hann þekkti fjölskyldu hennar, vini og barn og lék hlutverk kærastans í hennar heimi en hélt Dísu frá sínum. Útslagið varð svo þegar hann bað hana að sækja sig í partý hjá vinnufélaga. Dísa mætti fyrir utan og hringdi en hann svaraði ekki. Þá ákvað hún að hringja á bjöllunni og til dyra kom vinnufélaginn. Hún kynnti sig og sagðist vera kærasta Hannesar. Vinnufélaginn bauð henni þá inn og spurði Hannes hvers vegna hann hefði aldrei sagt sér að hann ætti kærustu og sama sagan var með alla hina vinnufélagana. Allir héldu að Hannes væri einhleypur og höfðu aldrei heyrt á hana minnst. Dísu sárnaði svakalega, þau rifust heiftarlega og hættu saman.
Þau höfðu reyndar oft hætt saman vegna þess að hún vildi meira úr sambandinu og hann ekki en samt gat hann ekki án hennar verið og vildi alltaf fá hana aftur. Og í þetta skipti eins og öll hin þá tókst Hannesi að lokka hana til sín aftur með því loforði að hleypa henni inn í sitt líf og kynna hana fyrir fjölskyldu og vinum. Dísa varð mikið glaðari og fannst sambandið vera loks að fara í rétta átt.
Símtal frá annarri konu
Svo þurfti Dísa að fara erlendis í viku. Hannes sendi henni ástarjátningar og hringdi og allt virtist í himnalagi þangað til helgin kom. Þá heyrði Dísa ekkert í honum og náði ekki í hann og þegar hún lenti á sunnudagskvöldi var enginn sem tók á móti henni. Loks á mánudegi náði hún í hann og hann virtist svakalega glaður að heyra í henni, sagðist bara hafa verið á skralli með vinum sínum og gleymt símanum og baðst afsökunar.
Þau hittust um kvöldið og hann var mjög ástríkur og góður og hún fyrirgaf honum. En eftir nokkra daga kom skellurinn stóri. Dísa fékk símhringingu frá stelpu sem var vinkona vinkonu hennar. Hún kynnti sig og Dísa var smá stund að ná tengingunni en svo kom erindið: Stelpan var að hringja því hún hafði átt í ástarævintýri með Hannesi helgina sem Dísa var í burtu og hún var miður sín því hún hafði ekki vitað að þau væru saman og vildi biðja hana afsökunar. Heimur Dísu hrundi, Hannes játaði allt og hún hætti með honum.
Dísa var einhleyp næsta eitt og hálfa árið og á meðan ringdi yfir hana sögum af Hannesi sem “vinkonur” hennar höfðu haldið frá henni á meðan þau voru saman og hún frétti þannig af fleiri hliðarsporum hans og viðreynslur við aðra hverja konu í bænum.
Vantraust og vandræði
Þetta fékk Dísu til að vantreysta mönnum gjörsamlega en engu að síður gerðist það eftir árs aðskilnað að Hannes kom aftur inn í líf hennar. Hún tók honum með fyrirvara en hann sagðist breyttur maður og vilja bara eiga líf með henni. Hann flutti inn, var barni hennar góður stjúpi og minnkaði skemmtanir um helgar en það var eitt af því sem hafði ollið vandamálum áður. Hannes reyndi að öllu leyti að vera eins og Dísa vildi en var þó staðfastur á því að eiga ekki fleiri börn.
Dísa vantreysti Hannesi áfram og njósnaði um sms og tölvupósta ef ske kynni að hann væri að hafa samband við aðrar konur en hún fann ekkert og ákvað því að sættast við Hannes þó það þýddi að hún fengi ekki draum sinn um stóra fjölskyldu og mörg börn uppfyllta. Hann var jú breyttur maður.
Árin liðu og sambandið gekk upp og ofan og vantraustið ríkti alltaf. Dísa reyndi að gera gott úr öllu en fékk þó alltaf sting í magann þegar hún frétti af enn einni óléttri vinkonu. Svo kom breytingaraldurinn og þá varð viss uppgjöf hjá Dísu – nú var orðið of seint að eiga börn og það var allt Hannesi að kenna.
Því hafði hún eytt þessum árum með honum? Afhverju hafði hún kastað draumum sínum á glæ fyrir hann?
Ykkur finnst þessi saga ef til vill löng og leiðinleg en það er einmitt málið, og hvað getum við lært af henni?
Ekki eyða lífi þínu í lélegt samband
Það eiga allir skilið að vera með manneskju sem elskar mann og virðir. Í samböndum þarf visst jafnvægi og ef annar aðilinn er “hrifnari” en hinn þá skapast togstreita sem erfitt er að höndla. Það er til dæmis ekki eðlilegt að “sætta” sig við samband en vera alltaf með augun opin fyrir einhverju “betra” bara vegna þess að maður þorir ekki að vera einn.
Það er tímaeyðsla að fara inn í samband með manneskju sem vill ekki það sama og þú í meginatriðum í lífinu, maður á ekki að þurfa að fórna æðstu draumum sínum fyrir aðra manneskju, það er ekki ást.
Að horfa upp á Dísu veldur mér hjartasári og ég vona að með því að deila þessarri sögu þá nái ég kannski að bjarga einhverjum frá sömu örlögum.
Ef þú ert í sambandi með rangri manneskju þá skaltu horfast í augu við það og enda það! Þín bíður eitthvað betra.
[poll id=”67″]Bella Baldurs hefur mikinn áhuga á persónulegum þroska, samskiptum, samböndum, ástarmálum, deitmálum og kynlífi.
Hún byrjar hvern dag á núvitundaræfingu áður en hún rúllar sér sígarettu og hellir upp á tvöfaldan espresso.