Að vera pjattrófa og reyna breiða út boðskapinn er ekki alltaf auðvelt, sérstaklega ekki þegar maður reynir að breyta eða bæta „snyrtirútínu“ karlmanns.
Margir karlmenn eru bara alls ekki fyrir „óþarfa pjatt“ og þannig er með manninn minn blessaðann.
Ekki að hann sé slæmur -hann er alltaf hreinn og vellyktandi og slær aldrei hendinni á móti nýjum rakspíra en þegar kemur að sjampóum, kremum og öðru „jukki“ þá er ekki séns að hann bregði út af vananum.
Karlinn minn notar rakakrem en alltaf sömu tegund sem heitir Lacobase og fæst i apótekum. Ég hef reynt að gefa honum voða fín karlmannskrem til að prófa, þú veist svona sem eru næringarík og jafnvel til að draga úr myndun fínna lína en það er ekki að ræða það, það er sko ekki rétta lyktin af því, þetta á að vera lyktarlaust og karlmannlegt eins og stóra Lacobase túpan er í íþróttatöskunni!
Í sumar fór hann að kvarta yfir hárinu á sér og sagði að það væri þurrt og ómögulegt og hann klæjaði í hársvörðinn. Ég hljóp auðvitað af stað að kaupa voða fínt sjampó til að laga þessa kvilla en þá sagði hann nei, hann væri bara hættur að nota sjampó, það væri best -og sjampóbrúsinn góði er óhreyfður á baðhillunni.
Svo um daginn fórum við í huggulega ferð í Bláa Lónið og ég fer auðvitað beint í kísil-leirinn og maka honum framan í mig og út um allt og spyr hann svo hvort ég eigi að hjálpa honum að setja á sig leirinn: „Til hvers“ spyr hann, eins og það sé ekki augljóst hvað leirinn í Bláa lóninu er góður fyrir húðina; styrkir hana, nærir, hreinsar og minnkar svitaholur.
En nei, hann vildi ekki fá svona“ jukk“ framan í sig, það væri bara óþægilegt og að því sögðu syntum við á barinn og pöntuðum okkur bjór.
Af þessu hef ég lært að vera ekkert að reyna breyta hans rútínu og ekki vera mikið að skipta mér af því að hann gengur stundum út úr húsi á morgnana með hárstrýtu í hnakkanum. Þegar hann er að hugsa fyrir sig sjálfur þá rekur hann sig á og ég á alveg ótal bráðfyndnar sögur af honum í pokahorninu.
Það hefur t.d. gerst að hann hefur verið í fínum jakkafötum og með bindi á mikilvægum fundi með stórum viðskiptavini en verið stoppaður af í miðri ræðu af því viðskiptavinurinn tók eftir einhverju glitrandi á sokkunum hans. Þá stóð með áberandi útsaumuðum pallíettum „sexy“ neðst á sokkunum hans -enda í sokkum af mér sem i ofanálag voru 5 númerum of litlir!!
Svo hefur hann komið heim úr sundi og Bónusferð blár í framan eftir að hafa þurrkað sér í framan með nýju handklæði -og blátt kusk fests í skeggrótina svo hann leit út eins og hann væri á leið á grímuball.
En það besta er þegar hann uppgötvaði það í lok vinnudags að hann var í sitthvorum skónum og þeir voru ekki einu sinni líkir því annar var brúnn og hinn svartur.
Það finna sér allir sína rútínu og ef hún virkar þá er það gott og blessað en fyrir okkur sem höfum fengið „uppljómun“ og höfum uppgötvað fjölbreytilega flóru snyrtivara sem við erum duglegar að prófa okkur áfram með þá munum við halda áfram að „breiða út boðskapinn“ og hver veit, kanski mun jafnvel kallinn minn einn daginn skipta um rakakrem eða fara til nýs hárgreiðslumanns í stað þess að bíða eftir að hans maður komi heim frá Saudi Arabíu á meðan hárið vex villt í allar áttir.
Vala vinnur hjá 66 Norður, er menntaður innkaupastjóri og faglegur ráðgjafi hönnuða í öllu sem snýr að viðskiptum og markaðssetningu. Hún er krabbi, fædd árið 1979 og montin mamma tveggja stráka. Býr í 101.