Barnalestin eftir Viola Ardone, fjallar um litla Amerigo frá Napolí sem tæplega átta ára gamall er sendur í margra tíma lestarferð til suður Ítalíu til að komast úr fátæktinni og fá betra líf um stundarsakir.
Ítalía eftir seinni heimsstyrjöldina
Sagan byggir á sönnum atburðum sem gerðust eftir síðari heimsstyrjöldina. Í Suður Ítalíu er mikil fátækt eftir stríðið og kommúnistar sem er að taka yfir ákveða að bjarga börnunum og senda þau norður þar sem ekki ríkir eins mikil fátækt. Þetta á að vera tímabundin dvöl, allt upp að hálfu ári en sum koma aldrei til baka.
Amerigo er átta ára og býr með móður sinni í sárri fátækt í Napolí. Hann veit ekki hver faðirinn er og á eldri bróður sem dó fyrir fæðingu Amerigos. Til að reyna að bæta lífsgæði drengsins tekur móðir hans þá ákvörðun að senda hann með barnalestinni til Norður Ítalíu.
Þar er allt annað líf, ekki eins mikil fátækt og börnin kynnast þar allt öðru lífi en þau þekktu fyrir. Þar er nógur matur og allir eiga skjólgóð föt og góða skó. Amerigo fær góða fjölskyldu og þegar hann er sendur til baka er hann ekki sáttur. Ekkert hefur breyst. Móðir hans vill ekki vita neitt af tíma hans í norðrinu og neitar að hlusta þegar hann vil segja frá.
Um það bil þrír fjórðu sögunnar fjalla um þennan tíma. Amerigo í Napolí, dvöl hans fyrir norðan og hvað gerist þegar hann snýr aftur heim. Hann er kotroskinn lítill strákur og gaman að heyra hvernig hann sér heiminn. En í síðasta hlutanum án nokkurs fyrirvara er lesandinn staddur með fullorðnum Amerigo sem horfir til baka yfir líf sitt. Hann reynir að átta sig á því hvers vegna allt er eins og það er. Í fyrstu ekki sáttur en eftir því sem sem á líður aðeins skilningsríkari.
Heimurinn með augum barnsins
Mér fannst þetta mjög fín bók. Hún er fyndin þegar hinn litli kotroskni Amerigo segir frá þvi hvernig hann rekst á ýmsa hluti og hvernig hann tæklar þá. Hún er aðeins skrítnari í síðasta hlutanum þegar hann skoðar líf sitt til baka. Þetta er er pínulítið eins og tvær ólíkar sögur í sömu sögunni. Hefði kannski mátt tengja þær aðeins betur saman.
Hinsvegar er áhugavert hvernig hans upplifun og upplifun móður hans er gjörólík. Hann er bara lítill strákur sem sér heiminn með augum barnsins meðan móðirin er mjög fátæk einstæð móðir sem getur varla gefið barni sínu að borða hvað þá keypt munaðarvöru eins og nýja skó.
Hún er stolt og ber höfuðið hátt og það myndast djúp gjá á milli þeirra. Hann hefur allt aðra reynslu af lífinu en hún. Hann hefur lært að lesa, spila á hljóðfæri og hefur braggast frá litla horaða drengnum sem var sendur í burtu. Hjá henni hefur lítið breyst, hún er enn bláfátæk og getur illa séð fyrir þeim báðum. Geta þau lært að skilja hvort annað? Eru skiljanlegar ástæður fyrir því að hún heimsækir hann ekki eða vill hún bara ekkert af honum vita? Amerigo sem fullorðinn maður er með mikla beiskju í hjartanu, er full ástæða til þess eða þarf að skoða sögu þeirra?
Barnalestin eftir Viola Ardone kom út hjá Mál og menningu í maí 2021. Þetta er þriðja bók höfundar og þýdd af Höllu Kjartansdóttur. Ég gaf henni 4,5 stjörnur því þetta er áhugaverð lesning og að mínu mati vel skrifuð. Hefði þó mátt tengja kaflana tvo aðeins betur saman.
Anna Kristín Halldórsdóttir er með fimm háskólagráður (án gríns) og hefur m.a áhuga á ljósmyndum, tölvum, fötum og bókum. Hún býr í Hafnarfirði ásamt yndislegri dóttur sem fædd er í Kína og hressum hundi sem elskar útiveru.