“YESSSS! Fæ ég þessa!!?”
…sagði sonur minn 10 ára sagði þegar ég kom heim með bókina “Krakkinn sem hvarf” eftir Þorgrím Þráinsson.
“Gaurinn kom í skólann um daginn og las upp úr henni, hún er geðveikt spennandi!” Þessi setning fylgdi á eftir stóra Yesss-inu
Bókin var lesin af miklum áhuga og nokkuð mörgum hlátursköstum. Svo miklum að ég varð að lesa hana líka. Verð ég að segja að ég varð ekki fyrir vonbrigðum frekar en sonurinn. Enda fáir rithöfundar jafn skemmtilegir og Þorgrímur Þráinsson þegar kemur að barnabókum.
Bókin er um Kára sem er 11 ára strákur og býr í litlu þorpi úti á landi. Fjölskylda hans og vinir eru áhugavert fólk sem gaman er að fylgjast með. Pabbi hans er uppfinningamaður og dettur ótal margt í hug. Til dæmis geymir hann bíl fjölskyldunnar upp á þaki og getur bíllinn breyst í bát þegar honum er keyrt út í sjó. Hann gerir tilraunir og notar Kára og vin hans Sindra Snæ sem tilraunadýr og eru tilraunirnar mikil ævintýri fyrir strákana. En spennan nær hámarki þegar strákarnir finna leyniskápinn sem pabbi Kára geymir allar leyni tilraunirnar sínar í.
Sagan er æsispennandi, stútfull af góðum húmor og með einstaklega skemmtilegum karakterum. Þessi bók er tvímælalaust ein af þeim bestu í jólapakkann í ár hjá strákum og stelpum sem hafa gaman af því að lesa!
Guðrún J. Halldórsdóttir er innanhúss- og húsgagnahönnuður. Sporðdreki og Tígur takk.