Eflaust hafa margar pjattrófurnar lagt leið sína í Gyllta köttinn í Austurstrætinu til að finna sér fallegan kjól eða vintage pels.
Glöggar pjattrófur hafa þá eflaust tekið tekið eftir því að stundum hvílir kisa sig í einum af stólunum sem standa í búðinni. Þetta er kötturinn Baktus (stundum kallaður Bakkus) sem er í eigu Hafdísar, eiganda Gyllta kattarins og Ernu Margrétar, verslunarstjóra sem er jafnframt dóttir Hafdísar.
Þær fundu Baktus ásamt bróður sínum, Karíusi, undir skúr þegar þeir voru aðeins um 2-3 daga gamlir en mamma þeirra hafði skilið þá eftir 🙁 Hafdís hjúkraði þeim bræðrum til heilsu en Karíus varð því miður undir bíl og hefur Baktus aldrei verið sá samur eftir það.
Einn daginn elti Baktus Hafdísi í Gyllta Köttinn og hann hefur ekki komið heim með þeim síðan, fyrir utan tvö til þrjú skipti þegar búðin hefur verið lokuð yfir hátíðar og kisi orðið of svangur til að halda út hangsið í búðinni.
Ég hef á ferðum mínum um miðborgina oft orðið vör við þennan stóra sæta kisa á vappinu og fór að velta því fyrir mér hvar hann svæfi. Bakkus stundar líka innbrot hjá fólki með kattalúgur, það er að segja þegar hann er ekki inní búðinni eða vappandi á götunni. Hann hefur líka reynt innbrot á Shalimar en það gekk ekki betur en svo að hann setti þjófavarnakerfið í gang! 🙂
Þegar Baktus, eða Bakkus, er svangur fer hann á Alibaba og fær kjúkling, Kraum til að kúra í ullarteppunum þegar það er kalt, hann fer á Iðukaffihúsið og fær oreo, hann fer í skattinn, Kolaportið og bara útum allt!
Hann hefur meira að segja ætlað að lyfta sér aðeins upp um helgar og ráfað inná skemmtistaðinn Austur en það vakti ekki mikla lukku hjá starfsfólki þegar drukkið fólk inná staðnum var farið að knúsast í greyið kallinum (sem eflaust hefði frekar viljað fara á dansgólfið að skemmta sér). Eftir þetta varð greyið Baktus að vera lokaður inni um helgar. Hann nær þó stundum að lauma sér inná Microbar til að kíkja aðeins í drykk.
Að sögn Ernu er Baktus hinn ljúfasti og alveg hreint yndislegur en hann lætur þó oft eins og hann sé kóngur og eigendur þjónar, egóið hans er geðveikt stórt. Ef hann nuddar sér upp við hana þá er það vegna þess að hann er blautur eftir rigninguna. Hún er semsagt bara hentugt mennskt handklæði haha!
Hann leyfir öllum að klappa sér og er mjög vinalegur, en hann hinsvegar þolir ekki börn. Ef grátandi börn koma inn í búðina er hann ekki lengi að flýja niðrá lager. Hann er dýravinur mikill og á nokkra hunda vini, en ef einhver hundur, sem hann þekkir ekki, er fyrir utan búðina þá langar honum að sýna þeim í tvo heimana og stekkur út til að ráðast á þá.
Ekki hægt að kalla hann veiðikött en hann unir sér oft við að sitja við Tjörnina og horfa á endurnar og hina fuglana. Kannski þorir hann ekki að reyna veiða því ef honum skyldi mistakast, það væri nú ekki gott fyrir egóið!
Herra egó hlustar heldur ekki á það þegar bílar flauta á hann heldur hægir hann á sér ef hann á leið yfir götu og það er flautað á kallinn. Svalur eins og vindurinn. Hann reynir stundum að hindra leið fólks inní búðina og stundum leggst hann skötuflatur í gættina svo fólk þarf að klofa yfir hann. Þetta á sérstaklega við þegar fólk með barnavagna þykist ætla að koma þarna inn.
Baktus ermeistari mikill og áhugasamir geta skoðað instagramið hans hér!
Krabbastelpan Eva Rós er fædd árið 1989, á tvö börn og góðan mann. Eva er mikill áhugamaður um hverskyns gamanmál en einnig uppeldi, ferðalög, heilsu, líkamsrækt, vín, matreiðslu, veisluhöld, kokteilagerð og góða þjónustu. Mottó Evu í lífinu er einfalt: Hver er sinnar gæfu smiður