Hæhó og jibbíjeij, það styttist í 17. júní! Þjóðhátíðardagur Íslendinga á sérstakt pláss í mínu hjarta. Ég á góðar minningar frá þessum degi úr barnæsku; Brúðubíllinn, gasblöðrur og spariföt. Svo ekki sé minnst á áfangann sjálfan, lýðveldisstofnunina 1944.
Eitt af því sem mér finnst órjúfanlegur partur af þessum degi er gamla góða skúffukakan með smjörkremi og kókosflögum.
Inn á Eldhússögur.com má finna skothelda uppskrift að slíkri skúffuköku. Dröfn Vilhjálmsdóttir sem á og heldur úti síðunni var svo góð að leyfa mér að deila henni með lesendum Pjattsins. Uppskriftina má finna hér á síðu Drafnar eða hér að neðan.
Þess má geta að lesendur síðunnar gefa kökunni [usr 4.5], 51 kusu.
Uppskrift
Form sem er 25×35 cm, fyrir ofnskúffu þarf 1 1/2 uppskrift.
2 dl sykur
2 dl púðursykur
2 egg
170 gr smjör, brætt
5 dl hveiti
1 tsk. matarsódi
1 tsk. lyftiduft
3 tsk. vanillusykur
1 dl. kakó, sigtað
2 1/2 dl súrmjólk með karamellu
1 dl vatn, sjóðandi heitt
Byrjið á því að taka út úr ísskáp smjör í kökukremið svo það verði mjúkt.
Hitið ofninn í 200 gráður. Bræðið smjörið og látið það kólna aðeins. Smjöri, púðursykri og sykri hrært mjög vel saman. Þá er eggjum bætt út í, einu og einu. Því næst er þurrefnunum blandað saman í skál annars vegar og súrmjólk og sjóðandi heitu vatni í aðra skál hins vegar. Um það bil helmingur af blöndunum úr hvorri skál fyrir sig er bætt út í deigið og hrært í stutta stund, þá er restinni úr báðum skálunum bætt út í deigið og hrært. Athugið að hræra eins stutt og hægt er, bara þar til hráefnin hafa blandast saman, ekki lengur. Deiginu er hellt í smurt smurt bökunarform eða ofnskúffu (þessi uppskrift passar í bökunarform sem er ca. 25 x 35 cm, fyrir ofnskúffu þarf að gera eina og hálfa uppskrift) og bakið í miðjum ofni í ca 20 mínútur eða þar til kakan hefur losnað frá köntunum og er bökuð í gegn í miðjunni.
Kökukrem
150 gr smjör, mjúkt
200 gr flórsykur
4,5 msk kakó
2 msk síróp
Hrærið smjörið þar til það er orðið kremkennt. Sigtið flórsykur og kakó saman og blandið því síðan smátt og smátt við smjörið. Ef kremið er of þykkt er hægt að bæta við örlítilli mjólk. Hrærið að lokum sírópi saman við. Smyrjið kreminu á kalda kökuna.
Verði ykkur að góðu!
Fanney hefur skrifað á Pjattið frá 2012. Hún skrifar mest um andlegu hliðina og lífsstílstengd mál. Fanney er viðskiptafræðingur og starfar sem slíkur hjá Markhóli markþjálfun. Hún býr í 105 Rvk ásamt sambýlismanni sínum Óskari Arnarsyni. Fanney er með sól í fiskum en er rísandi bogmaður.