Öll þekkjum við hve gulrætur geta verið dásamlegar í kökur og eiga gulrótarkökur miklum vinsældum að fagna. Kúrbítur er sjaldséðari í kökum en passar ákaflega vel í suman bakstur, til dæmis í ýmsar múffur og brauð en ekki síst í súkkulaðikökur.
Kúrbíturinn gerir kökuna mjög mjúka og ljúffenga og við erum að borða ákaflega hollt grænmeti um leið og sætindaþörfinni er fullnægt. Getur vart verið betra! Kúrbítur er bráðhollur, hitaeiningasnauður og ríkur af fólinsýru (B-vítamíntegund), A-vítamíni, kalíum og fleiru.
Hér er góð uppskrift að gómsætri kúrbítsköku.
- 150 g sykur
- 1 tsk. matarsódi
- 1 tsk. lyftiduft
- 3 msk. bökunarkakó
- smávegis salt
- 1 tsk. kanilduft
- 2 dl grænmetisolía
- 1 dl súrmjólk (má nota mjólk)
- 2 egg
- 1 tsk. vanilludropar
- 1 stór kúrbítur, niðurrifinn
- 1 dl pekanhnetur, saxaðar (má sleppa)
Blandið öllum þurrefnunum saman í skál. Hrærið grænmetisolíu, eggjum, súrmjólk og vanilludropum vel saman í annarri skál. Hellið hrærunni saman við þurrefnin og blandið vel. Bætið síðan rifnum kúrbít út í og hnetum ef þið notið þær. Setjið í smurt form og bakið við 180 gráður í 35-45 mínútur, fer eftir stærð formsins. En öruggast er að stinga prjóni í kökuna áður en tekin úr ofninum. Kælið og smyrjið svolitlu súkkulaðiglassúri ofan á ef þið viljið.
Skreytið með kúrbítsstrimlum rétt áður en kakan er borin fram.
Rósa starfaði um árabil sem blaða- og fréttamaður lengst af hjá fréttastofu Stöðvar tvö og Bylgjunnar. Hún hefur skrifað um mat og matargerð í ýmis blöð og tímarit, þar af í rúman áratug fyrir Gestgjafann. Rósa gaf út sína fyrstu matreiðslubók, Eldað af lífi og sál, haustið 2009. Nú starfar Rósa við ritstörf hjá Bókafélaginu og er bæjarfulltrúi í Hafnarfirði.