Langar þig í himneskan kökubita ? Ef svo er þá er kannski “Kakan sem er betri en kynlíf” eða “Better than sex” eitthvað fyrir þig?
Innihald:
- 1 krukka Smucker’s Toppings – Karamellubragð (fæst í Hagkaup)
- 1 pakki Toffypops (fæst í flest öllum matvörubúðum)
- 1 pakki súkkulaðikaka frá Betty Crocket (fæst í flest öllum matvörubúðum) en í hana fara 3 egg, olía og vatn.
- 1 dós niðursoðin mjólk (Evaporated eða condenced, munurinn er sá að evaporated mjólkin er ósætt, meðan hin er dííííssæææætt) ég notaði evaporated mjólk en þessi mjólk fæst í Kosti og í Asískum verslunum.
- 1 pakkning Cool Whip (fæst í Hagkaup) en ég keypti Extra Creamy.
Aðferð:
Bakaðu súkkulaðikökuna skv. leiðbeiningum á pakka.
Settu karamellusósuna í lítinn pott (Smucker’s Topping) og niðursoðnu mjólkina og hitaðu þar til blandan fer að þykkna. Passaðu þig að hún brenni ekki við, það þarf svolítið að standa yfir þessari sósu. Þú getur hugsað hana sem einhversskonar forleik 😉 Þegar hún er tilbúin láttu hana þá kólna í smá stund en þá þykkist hún meira.
Saxaðu kexið niður (Toffypops) í matvinnsluvél (lítilli) eða saxaðu það smátt með hníf.
Þegar súkkulaðikakan er tilbúin láttu hana kólna í 20 mínútur og stingdu svo göt í kökuna hér og þar t.d. með sleif eða öðru áhaldi en ekki taka hana úr forminu.
Helltu því næst karmellusósumjólkurblandinu yfir kökuna og notaðu skeið til að ýta sósunni ofan í holurnar sem þú varst að gera.
Settu því næst Cool Whip ofan á kökuna og að lokum dreifðu kexinu yfir hana.
Nú er kakan tilbúin til að gæða sér á og fyrir þig að dæma hvort hún sé betri en kynlíf, en stundum er hún kölluð “Betra en allt” þegar lítil eyru eru nálægt eldhúsinu…
Sigrún Þöll Þorsteinsdóttir (f.15 feb 1975 – d. 8 apríl 2014) bloggaði á Pjatt.is í rúmlega tvö ár.
Sigrún Þöll starfaði sem tölvunarfræðingur, var dellukona, tækjasjúk og fagurkeri af lífi og sál. Að eigin sögn fannst Sigrúnu gaman að hlaupa, hjóla, drekka kaffi, huga að heilsunni, prjóna, lesa, taka ljósmyndir, rækta garðinn sinn og fleira og fleira. Blessuð sé hennar minning. Sigrún verður ógleymanleg þeim sem kynntust þessari dásamlegu konu.