Hver man ekki eftir formkökunum góðu sem bornar voru fram í þrjú kaffinu á sunnudegi í gamla daga…
Jólakaka, Marmarakaka, Sandkaka og Brúnkaka.
Allt í einu langaði mig í brúnköku með ískaldri mjólk og ákvað ég að slá til og hræra í eitt stykki. Nú er kakan inn í ofninum og íbúðin ilmar af gömlum tímum og ýmislegt frá æsku minni þýtur í gegnum hugann á mér.
Hvernig væri nú að hverfa aðeins í fortíðina og baka gömlu góðu kökurnar, aðeins leggja til hliðar hrásykurinn, döðlurnar til að sæta, speltið og kókosmjölið og baka upp úr smjéri, sykri og hveiti, gömlu góðu hráefnunum?
Hér er uppskrift að brúnkökunni sem ég er að baka. Hún er fenginn upp úr bókinni Maturinn hennar Mömmu, yndælis bók sem er með allar gömlu uppskriftirnar sem fólk er nánast hætt að gera.
Brúnkaka
150 g púðursykur
3 egg
1 dl mjólk
250g hveiti
2 tsk lyftiduft
3 tsk kanill
1 tsk negull
100 g rúsínur
Hræra saman smjör og púðursykurinn. Bæta einu eggi út í í einu og hræra vel. Bæta þurrefnum út í ásamt mjólkinni til skiptis og hræra létt á milli. Í lokin bæta rúsínunum út í deigið og baka á neðstu hillu við 170 gráðu heitum ofni í 45 mínútur.
Að sjálfsögðu er kakan borin fram með ískaldri mjólk *mmmmm*
Sigrún Þöll Þorsteinsdóttir (f.15 feb 1975 – d. 8 apríl 2014) bloggaði á Pjatt.is í rúmlega tvö ár.
Sigrún Þöll starfaði sem tölvunarfræðingur, var dellukona, tækjasjúk og fagurkeri af lífi og sál. Að eigin sögn fannst Sigrúnu gaman að hlaupa, hjóla, drekka kaffi, huga að heilsunni, prjóna, lesa, taka ljósmyndir, rækta garðinn sinn og fleira og fleira. Blessuð sé hennar minning. Sigrún verður ógleymanleg þeim sem kynntust þessari dásamlegu konu.