Ég átti von á gestum í kvöld og ákvað að baka handa þeim brúnkur (e. brownies) og bera fram sem eftirrétt. Skyndilega fékk ég þá hugmynd um að gera bollaköku (e. cupcake) úr deiginu í staðinn.
Úr tilraunarmennskunni í eldhúsinu urðu til sex bollakökubrúnkur sem voru sjúklega góðar *mmmmm*. Hér að neðan er uppskriftin en ég tvöfaldaði hana og bætti við 2 msk. af mjólk til að gera deigið aðeins mýkra.
Brúnkur
- 60 g 70% súkkulaði
- 1/3 bolli olía
- 2 stór egg
- 1 bolli sykur
- 2/3 bolli hveiti
- 1/2 tsk lyftiduft
- 1/2 tsk salt
- 100 g pekanhnetur
- 1 tsk vanilludropar
Aðferð:
- Bræða súkkulaði og setja olíuna út í ásamt vanilludropunum. Kæla smá.
- Hræra saman egg og sykur þar til blandan er orðin létt og ljós.
- Blanda súkkulaðiblöndunni út í og hræra vel.
- Blanda þurrefnum út í ásamt niðurskornum pekanhnetum og ef þú ætlar að gera bollakökubrúnkuna þá 2 msk. af mjólk.
Baka við 180 gráður. ATH! Baksturstími fer eftir því hvað bollakökubrúnkan er stór. En ég gerði tvöfalda uppskrift og setti í sex form þannig að hver kaka var svolítíð stór og tók alveg 25 mín að baka kökurnar.
Næst er dásemdin…
Gera holu í bollakökurnar og hella Smucker’s karmellusósu (fæst í Hagkaup) ofan í kökurnar. Því næst er gert krem úr flórsykri, smjöri og einu eggi. Hræra þessa blöndu vel saman. Ég biðst afsökunar á því að hafa ekki verið með mæliskeiðina þegar ég gerði kremið. Taka svo afganginn af Smucker’s karmellusósunni og hella út í kremið og setja svo bananabragðefnadropa út í.
Setja kremið ofan á bollakökurnar og raspa svo súkkulaði ofan á. Hella sér svo upp á kaffi og fara í sykursjokk! 🙂
Ef þig langar eingöngu að gera brúnkur, þá setur maður bara deigið án mjólkur í lítið ferkantað form og bakar í 20-30 mín við 180 gráður.
Sigrún Þöll Þorsteinsdóttir (f.15 feb 1975 – d. 8 apríl 2014) bloggaði á Pjatt.is í rúmlega tvö ár.
Sigrún Þöll starfaði sem tölvunarfræðingur, var dellukona, tækjasjúk og fagurkeri af lífi og sál. Að eigin sögn fannst Sigrúnu gaman að hlaupa, hjóla, drekka kaffi, huga að heilsunni, prjóna, lesa, taka ljósmyndir, rækta garðinn sinn og fleira og fleira. Blessuð sé hennar minning. Sigrún verður ógleymanleg þeim sem kynntust þessari dásamlegu konu.