Reykjavik
18 Mar, Monday
5° C
TOP

Bækur: Zombíland – Hverjir eru zombíar nútímans?

 zombiland-sorineZombíland eftir grænlenska höfundinn Sörine Steenholdt kemur virkilega á óvart. Þetta eru smásögur frá Grænlandi og fjalla alls ekki um það sem maður gæti haldið af titlinum. Zombíland er nefnilega ekki sögur af uppvakningum heldur sögur af lifandi fólki í Grænlandi nútímans. Fólki sem lifir í einsemd í ákveðinni firringu.

Þetta eru ekki fallegar sögur. Sumar þeirra eru virkilega hræðilegar og ógnvæglegar. Sögur af manneskjum sem berjast fyrir lífi sínu í harðneskjulegum heimi. Börn foreldra sem hafa aldrei sinnt þeim, foreldrar sem stunda mikla drykkju og eldra fólk í einsemd. Það sem sameinar sögurnar er þessi hræðilegi, sameiginlegi veruleiki. Harðneskjulegt landið og börnin sem fá ekki að vera börn.

Allar sögurnar, nema ein, eru tengdar saman með ljóðum eða stuttum örsögum. Þessar sögur eru virkilega áhrifamiklar og gefa lesandanum utan undir hvað eftir annað:

Hljóðin frá hnífum í eldhúsinu. Blóð út um allt. Dauðinn er kominn í heimsókn. Gægist inn. (bls. 72).

Þetta er ekki löng bók og það er kannski eins gott… Það þarf aðeins að ná sér eftir lesturinn. Ég gat ekki hætt að lesa og var því fegin að bókin var ekki lengri. Hún er hins vegar það áleitin að hún leitar áfram á hugann löngu eftir að lestrinum lýkur. Söguhetjurnar eru flestar grimmar og harðar en samt náðu þær samúð minni. Ég varð sorgmædd yfir örlögum þeirra. Ótrúlega áhrifamikil bók, alla vega fyrir mig.

Svo drap hún í sígarettunni á handleggnum á mér, rétt undir öxlinni
og sagði mér loksins að koma mér í rúmið. (bls 57).

Ég gef þessari bók fjórar stjörnur því það dregur hana aðeins niður að hún hefur ekki verið prófarkalesin nógu vel og það eru því óþarflega margar stafsetningarvillur í henni. Ég hvet fólk eindregið til að lesa hana því það er mjög áhugavert að lesa frá Grænlandi nútímans. Ég segi fyrir mig að ég veit mjög lítið um Grænland sem er furðulegt því þetta er land sem er ekki mjög langt frá okkur. Zombíar nútímans eru ekki uppvakningar heldur fólk sem hefur orðið undir í lífinu og kannski aldrei átt neinn séns.

Bókaútgáfan Sæmundur 2016, 125 blaðsíður. Bókin er fyrsta bók höfundar og var tilnefnd til bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2016. Zombíland er myndskreytt af Maja-Lisa Kehlet Hansen og eru þetta virkilega sláandi myndir sem eiga vel við textann.

Fjórar stjörnur 4 out of 5 stars (4 / 5)

Anna Kristín Halldórsdóttir er uppeldis -og menntunarfræðingur, náms- og starfsráðgjafi og margmiðlunarhönnuður. Með áhuga á ljósmyndum, tölvum, fötum og bókum. Hún elskar Kína og kínverska menningu, gengur marga km á dag og er að búa sig undir að ganga Jakobsstíginn. Hún býr í Hafnarfirði með dóttur sem fædd er í Kína og hundi sem elskar göngur og útiveru. Anna er steingeit en les alltaf vatnsberann líka, bara til að eiga val.