Vonarlandið er eftir Kristínu Steinsdóttur sem er einn af mínum uppáhalds íslensku rithöfundum í dag.
Bækurnar hennar eru margar um horfna tíma og perónurnar lifa mikið harðræði.
Þessi saga er engin undanteking á því. Vonarlandið fjallar um vinkonurnar Guðfinnu og Stefaníu sem koma saman til Reykjavíkur á seinni hluta nítjándu aldar með von um betra líf. Þær eiga hvor aðra að en ekki marga aðra og líf sem vinnukonur í sveit hugnast þeim ekki. Í bænum er von um betra líf þar sem ekki er harður húsbóndi sem ræður öllu.
Þær eins og aðrar konur á þessum tíma prufa að vinna við kolaburð, vatnsburð, fiskburð, þvotta og vinnustúlkur hjá betri fjölskyldum. Vinnan er erfið og lífið eftir því. Frístundir fáar og lítið hægt að leggja fyrir. Þær eiga sér samt sína drauma, drauma um að vera engum háður og jafnvel finna ástina sína.
Kristín á gott með að lýsa örbirgðinni og kuldanum. Hvernig þær rogast með byrði sína í hvaða veðri sem er. Enginn sem hjálpar til nema aðrar konur í sömu stöðu og þær sjálfar.
Líf þeirra snýst aðeins við er þær leita sér skjóls í bólusóttarhúsi sem virðist vera yfirgefið af fólki og þær ákveða að hirða koppa og lín og selja sér til framfæris. Átakanlegt er þegar Jóka vatnsberi eignar sér eina sængina og hefur eftir það litla ástæðu til að æða út á kvöldin til að reyna að ná sér í hlýju og gleyma aðeins erfiðum kjörum. Nú á hún hlýja sæng og þarf ekki út.
Karlarnir í bókinni eru heldur aulalegir og eru ekki til mikils gagns. Reyna allt sem þeir geta til koma konunum undir sig, annað hvort í bókstaflegri merkingu eða sem vinnuhjú. Ef þeir fá ekki sínu framgengt umturnast þeir og hóta öllu illu og sumir geta framkvæmt hótanir sínar.
Þetta er yndisleg bók um erfitt líf í kulda og vosbúð. Bók þar sem maður finnur til með persónunum og þakkar sínum sæla fyrir að vera ekki uppi á sama tíma, alla vega ekki sem kona.
Manni verður kalt á höndunum og finnur bleytuna á fótunum. Fær verki í mjóhrygginn og pirring út í þessa karla sem öllu vilja ráða. Fjórar stjörnur
[usr 4,0]
Anna Kristín Halldórsdóttir er með fimm háskólagráður (án gríns) og hefur m.a áhuga á ljósmyndum, tölvum, fötum og bókum. Hún býr í Hafnarfirði ásamt yndislegri dóttur sem fædd er í Kína og hressum hundi sem elskar útiveru.