Vitnið er nýjasta bók Noru Roberts. Bók sem fjallar um ást, örlög og hvernig saklaus einstaklingur flækist inn í undirheimana.
Elísabet Fitch er aðeins 16 ára þegar hún gerir uppreisn á móti móður sinni en móðir hennar hafði alið hana upp eins og dúkku.
Hvert fótmál hennar var skipulagt, hún átti að vera fullkomin í einu og öllu samkvæmt uppskrift móður sinnar. En þegar Elísabet verður vitni að morði breytist líf hennar á augabragði. Hún fer í vitnavernd og allt fer á versta veg.
Næstu tólf árin er Elísbet í felum fyrir morðingjunum sem leita hennar. Hún kemur sér fyrir í smábæ og er afskaplega einangruð því hún hræðist að kynnast fólki sem gæti komið upp um hana en lögreglustjórinn í smábænum er hörku töffari sem lætur ekkert stoppa sig og lesandinn fær að kynnast ofur rómantísku spennusambandi þeirra.
Bókin skartar skemmtilegum og líflegum persónum sem halda lesandanum vel við efnið. Vitnið er hörkuspennandi og rómantísk á sama tíma. Tvímælalaust gef ég henni fjórar stjörnur og mæli með henni í sumarfríið.
Létt, spennandi og rómantísk bók sem tilvalið er að hafa með í fríið!
Guðrún J. Halldórsdóttir er innanhúss- og húsgagnahönnuður. Sporðdreki og Tígur takk.