,,Vince Vaughn í skýjunum” er bók eftir Halldór Armand Ásgeirsson. Það er alltaf gaman að fá nýja höfunda í hendurnar og það er með eftirvæntingu sem ég byrja að lesa.
Höfundurinn er ungur, bæði að árum auk þess að vera nýr á sviðinu. Bókin ber því þess merki að vera eftir ungan mann. Bókin skiptist í tvær smásögur í lengri kantinum, eða novellur. Ég verð að viðurkenna að ég varð hissa þegar ég uppgvötaði að þetta eru tvær sögur þar sem að það kemur ekki fram á baksíðunni.
Persónulega er ég ekki mikið fyrir smásögur og ég hefði kannski ekki lesið þessa bók ef ég hefði vitað að þetta væri ekki ein saga. Ég vil doðranta, helst 1.000 bls eða svo, þá er ég ánægð. Að því sögðu þá verður það að viðurkennast að þessar sögur eru hin ágætasta afþreying og ég er fegin að ég vissi ekki uppbyggingu bókarinnar áður en ég hóf lestur.
Fyrri sagan höfðaði þó mun meira til mín: Sara fær sumarvinnu í sundlaug og nær einn daginn að taka myndband á símann sinn sem hún setur á netið. Af stað fer atburðarás sem verða hennar 15 mínútur af frægð.
Það truflaði mig samt hvað Sara virtist láta atburðarásina hafa lítil áhrif á sig. Miðað við aldur hefði hún átt að vera miklu spenntari en hún reyndist vera – það er kannski aukaatriði. Mér fannst ótrúlega skemmtilegar lýsingarnar á sundlaugargestunum og samskiptum sundlaugarvarðanna við þá, að horfa aldrei í augu því ekki á að sjá fólkið sem einstaklinga heldur sem eina heild sem sundlaugargesti.
Mér fannst líka góð lýsing á því hvernig einhver skýst upp á stjörnuhimininn og hvernig ágengi fjölmiðlanna er. Lýsingin á foreldrunum var einnig skondin, farin að stunda göngur og spila golf.
Seinni sagan, Hjartað er jójó, fjallar um Þóri sem er lottókynnir og dreymir um frægð og frama í sjónvarpinu. Þórir hefur þó enga burði til að sækjast eftir frægðinni enda sárlega taugaveiklaður einstaklingur.
Ég náði ekki alveg takti við þá sögu því að mér fannst Þórir svo mikið grey. Persónulýsingar eru þó skemmtilegar, sérstaklega af rithöfundinum fræga sem og eiganda Lottó. 15 mínúturnar hans Þóris fara ekki nógu vel og hann er ekki sáttur við hvernig til tekst. Bregður Þórir á það ráð að bjarga því en gerir bara illt verra.
Í heildina litið er ég sátt við þessa fyrstu bók Halldórs Armands.
Skemmtilega ljóðrænar lýsingar af fólki og ágætis ádeila á fánýtan stjörnuheiminn sem snýst einungis um sjálfan sig.
Anna Kristín Halldórsdóttir er með fimm háskólagráður (án gríns) og hefur m.a áhuga á ljósmyndum, tölvum, fötum og bókum. Hún býr í Hafnarfirði ásamt yndislegri dóttur sem fædd er í Kína og hressum hundi sem elskar útiveru.