Að skrifa bók um eigin geðveiki í fyrstu persónu hlýtur að vera mikil þrekraun. Héðni Unnsteinssyni tókst þó að gera þetta vel í bók sinni Vertu úlfur sem kom út hjá Forlaginu fyrir nokkrum vikum.
Ég vissi ekki beint hvað ég var að fara að lesa þegar ég opnaði bókina.
Jú, ég vissi að ég var að fara að lesa sögu manns með geðhvarfasýki en ég reiknaði ekki með að hann tæki mig með í ferðalagið, eins og það leit út, séð frá hans sjónarhorni bæði á upp og niðurleið. Þvílík rússíbanaferð!
Mér fannst þetta mögnuð reynsla og eftir lesturinn tel ég mig skilja mun betur hvað fólk með geðhvarfasýki eða bipolar disorder gengur í gegnum.
Eins og Héðinn lýsir þessu, þá fer manneskjan í ham. Geðhvarfasýkin eru hamskipti. Hann líkir því við varúlfshaminn og þaðan er titill bókarinnar kominn – Vertu úlfur.
Þú ert ekki þú sjálf/ur lengur. Andinn er tekinn yfir af þessum sjúkdómi sem annaðhvort dregur þig lengst niður í sortann eða snýr þér eins og skopparakringlu þar til þú flýgur út úr sjálfri þér.
Hér lýsir Héðinn því þegar hann situr í bíl á leið út á land og hlustar á tónlist. Á þessum tíma er hann í maníu eða oflæti.
„Flest lögin tengdust ástinni, sorginni og lífinu sjálfu en hugur minn færði þeim eigin merkingu, eins og þau hefðu verið samin með mitt líf í huga. Hin hefðbundna sjálfhverfa oflætis vann á. Það var svo næmur, svo ofurnæmur strengur í brjósti mér sem hreyft var við. Líkt og minnsta áreiti, sem ekki hreyfir við strengjum hinna “eðlilegu”, ylli hrifnnæmum tilfinningum hjá mér. Ef aðrir voru tilfinningalegir kontrabassar var ég hundrað strengja harpa.”
Það er mat mitt eftir lesturinn að Héðni hafi tekist ætlunarverk sitt, sem var að opna dyr fyrir okkur þessi “eðlilegu” og sýna okkur aðeins inn í heim þess sem glímir við geðhvarfasýki.
Á sama tíma minnir hann lesendur á að það er sitthvað sem við, þessi heilbrigðu, og úlfarnir eigum sameiginlegt. Hann veltir því líka upp hvernig bata skuli náð og hvort ekki borgi sig að horfa meira á það sem er heilt í stað þess að einblína á það sem kann að vera óheilt. Í lokin tekur hann saman 14 atriða lista yfir það sem hjálpar okkur að lifa uppbyggilegra og heilbrigðara lífi en Héðinn átti á sínum tíma jafnframt heiðurinn að Geðorðunum 10.
Í eftirmála bókarinnar skrifar Héðinn:
„Eitt af markmiðum mínum með frásögninni er að hvetja samfélög okkar til að endurskoða skilgreiningar sínar, gildismat og forsendur fyrir þeim kerfum sem við höfum smíðað til að hjálpa fólki að takast á við lífsorku sína. Getum við greint og byggt upp það sem er heilt meðal manna í stað þess að einblína á það sem kann að vera óheilt? Getum við metið einstaklinga út frá manngildi, hæfileikum og getu? Getum við stigið upp úr hinum sífjölgandi hólfum huglægra „merkimiða” sem samtími okkar hefur útbúið svo að réttlæta megi minnstu frávik frá hverfandi normi?”
Vertu Úlfur er öðruvísi bók enda sannarlega öðruvísi að verða úlfur. Ég vil gefa henni fjórar stjörnur og hvet áhugasama um mannsandann til að lesa hana.
[usr 4]
Ég er af X-kynslóð, elska 70’s tónlist, finnst gott að fara í sund á kvöldin og á erfitt með arfa i görðum. Kýs fjölbreyti í lífið. Kann eina Eminem plötu utanað. Hef thing fyrir Marilyn Monroe, áhuga á feminisma og svona sitthvað fleira.