Verjandi Jakobs eftir William Landay er réttardrama sem vekur upp áleitnar spurningar. Hvað myndir þú gera ef barnið þitt yrði ákært fyrir morð?
Aðstoðarsaksóknarinn Andy Barber stendur frammi fyrir því að svara þessari spurningu þegar skólabóðir 14 ára sonar hans finnst myrtur og böndin berast að syni hans.
Þetta er þrælspennandi!
Sem foreldri gat ég ekki varist því að hugsa hvað ég myndi gera ef þessi staða kæmi upp? Held að það sé öruggt að flestir foreldrar myndu berjast af öllum kröftum. Það er einnig eftirtektarvert að lesa hvernig almenningsálitið dæmir ekki bara barnið sem er fyrir rétti heldur einnig foreldrana, fjölskylduna. Hverjir eiga skrýmslið?
Faðirinn, Andy Barber, rekur söguna og fer stór partur í vangaveltur um það hvort þau hjónin hafi gert veigamikil mistök í uppeldinu eða hvort hægt sé að erfa glæpahneigð rétt eins og listhneigð eða ást á bókum eða hvað sem er. Er til eitthvað sem heitir glæpagen?
Vangavelturnar snúast einnig um það að þekkja barnið sitt. Þekkja foreldrar börnin sín ekki út og inn eða eiga þau sér leyndar hliðar sem foreldrar vita ekkert um. Foreldrarnir hafa t.d. aðgang að Facebook síðu sonarins en þau skoða hana aldrei af því þau eru viss um að hann sé ekkert að gera neitt af sér.
[youtube]http://www.youtube.com/watch?v=fgObz7BCPLI[/youtube]
Í gegnum lesturinn gat ég ekki annað en hugsað um það hver mín viðbrögð yrðu ef svona hræðileg staða kæmi upp. Er Jakob saklaus eða er hann skrýmsli sem myrti skólafélaga sinn án þess að blikka auga. Hættir maður að elska barnið sitt eða elskar maður það enn meira?
NIÐURSTAÐA
Ég ætla að gefa henni 3,5 stjörnur vegna þess að þó sagan sé spennandi þá fór í taugarnar á mér hvernig Andy Barber kemur með bendingar um hvað á eftir að gerast og hvernig hann hefði átt að sjá ákveðna hluti eða atburðarás fyrir.
Mér fannst þetta skemma spennuna en það þarf ekki að vera að öðrum finnist það því þetta er hluti af því hvernig sagan er sögð.
[usr 3,5]
Anna Kristín Halldórsdóttir er með fimm háskólagráður (án gríns) og hefur m.a áhuga á ljósmyndum, tölvum, fötum og bókum. Hún býr í Hafnarfirði ásamt yndislegri dóttur sem fædd er í Kína og hressum hundi sem elskar útiveru.