BÆKUR: Vegabréf, vísakort og lyklar að hjólinu – Ferðasaga

BÆKUR: Vegabréf, vísakort og lyklar að hjólinu – Ferðasaga

unnuroghogni10

Á fjörur mínar rak bókina, Vegabréf, vísakort og lyklar að hjólinu eftir Unni Sveinsdóttur og Högna Pál Harðarson. Þetta er ferðasaga þeirra er þau hjóluðu 30.600 km yfir 20 lönd árið 2014.

Unnur og Högni eru að sögn venjulegir Íslendingar en þau eru samt óvenjuleg að einu leiti. Þau eiga sér drauma um að sjá sem mest af heiminum á mótorhjóli og þau eru byrjuð að láta þessa drauma rætast.

Í bókinni er fjallað um lengstu ferðina sem þau hafa farið til þessa, en ferðin tók 147 daga. Þau ferðust á hjólunum um Mið-Asíu, gistu þar sem þau fengu gistingu og hjóluðu eins og enginn væri morgundagurinn. Skemmtilegt að lesa um ævintýri þeirra og gaman að lesa um venjulegt fólk sem fylgir draumum sínum.

Vegabréf, vísakort og lyklar

Bókin er sett upp í myndabók með texta og fjallað er um hvert land í örstuttu máli. Sum þessara landa eru lönd sem ég hef heyrt um en vissi svo sem ekkert meira. Mér finnst þetta skemmtilega uppsett og ég las textann og skoðaði myndirnar af miklum áhuga, eina sem ég gæti kannski sett aðeins út á er að það eru ekki allar myndirnar merktar. Stundum var ég að pæla í því hvað væri hvað, stundum kom það þó ekki af sök því það fór ekkert milli mála.

Unnur og Högni PállÖðruvísi ferðalag

Mér fannst gaman að skoða myndirnar þar sem höfundar hafa ekki fallið í þá gryfju að velja ódýran pappír heldur er bókin prentuð á gæða myndapappír þannig að myndirnar njóta sín ágætlega. Textinn er skemmtilegur og skrifaður af næmi og húmor. Sögurnar eru mátulega langar og draga mann áfram. Þetta er greinilega góður ferðamáti ef fólk vill kynnast menningu landa og njóta samvista við annað fólk sem er í leit að því sama.

Ég segi nú kannski ekki að mig langi í svona ferðalag en ég held samt að það sé mun meira gefandi á alla vegu en þegar ferðast er í skipulögðum ferðum á fyrirfram skipulagða staði. Þarna er hver dagur tekinn í flæðinu og ef hlutirnir ganga ekki alveg upp þá er planinu svissað og stefnan tekin upp aftur næsta dag.

Bókin er 128 blaðsíður og safnað var fyrir útgáfunni á Karolina Fund. Það er skemmtilegt að sjá hvað fólk er farið að gera mikið af svona og gefa út sjálft.

Niðurstaða: Þetta er skemmtileg ferðasaga um óvenjulega ferð um Mið-Asíu. Gaman að lesa textann og myndirnar gæða hann lífi. Fjórar stjörnur.

Fjórar stjörnur 4 out of 5 stars (4 / 5)

Share on facebook
Deila á Facebook
Share on twitter
Deila á Twitter
Share on pinterest
Deila á Pinterest