BÆKUR: Vefur Lúsífers-Klassísk spenna ⭐️⭐️⭐️⭐️

BÆKUR: Vefur Lúsífers-Klassísk spenna ⭐️⭐️⭐️⭐️

kristina ohlssonVefur Lúsífers er spennusaga í mínum anda.

Klisjukennd aðalpersóna með mjúkar hliðar, furðulegt mál og að því er virðist nokkrar sögur sem fléttast saman.

Kristina Ohlsson er einn af mínum uppáhalds spennusagna höfundum.

Ég varð því alveg verulega glöð þegar ég sá að það var komin ný bók eftir hana, Vefur Lúsífers.

Þessi bók kom mér samt nokkuð á óvart. Ég reiknaði alls ekki með að hún fjallaði um allt aðrar persónur heldur en í fyrri bókum og var smá stund að hugsa um það hvort ég fílaði þennan nýja stíl hennar og aðalpersónuna, Martin Benner. Bókin er hinsvegar svo spennandi að eftir nokkrar blaðsíður var ég búin að steingleyma efasemdum mínum.

Staðalímyndir allar á skjön

Aðalpersónan er lögfræðingurinn Martin Benner, þeldökkur maður sem elur upp hvítt barn látinnar systur sinnar. Hann er mikið fyrir kvenfólk en samt veit hann ekki alveg hvort Lucy Miller samstarfskona hans er kannski sú eina rétta fyrir hann.

Það kemur til hans maður og biður hann að finna hver kom morðsök á systur sína. Hún hafði framið sjálfsmorð eftir að hafa játað að hafa drepið fimm manns. Martin tekur þetta að sér mest vegna forvitni. Hann flækist í flókinn lygavef og getur ekki snúið til baka, það nefnilega rignir daginn sem allt fer til fjandans eins og Martin segir í upphafi bókarinnar.

Klisjukenndur Martin

Í byrjun sögunnar er Martin frekar óaðlaðandi gaur. Hann er klisjukenndur, lítur vel út og veit það, tollir illa í rúmi einnar konu og finnst það frekja að krefjast þess af honum. Honum líkar piparsveinslífið vel. Kemur illa fram við mömmu sína og elur barnið furðulega upp. Hann er skotinn í Lucy sem er skotin í honum og sefur reglulega hjá henni en sefur líka hjá öðrum konum og reynir stanslaust að réttlæta það fyrir sjálfum sér. Hins vegar þá venst hann og í lok sögunnar er hann orðinn næstum því alveg prýðis góður náungi.

vefur lúsifersMér fannst stíllinn minna mig dálítið á bækur sem voru skrifaðar fyrir nokkrum áratugum af karlmönnum. Yfirleitt sögur um karlmenn sem eru einfarar, roggnir með sig og vel upp á kvenhöndina. Mér finnst þetta samt ganga upp. Ég var samt dálítið hissa á því hvað hann átti mikið af peningum því það er í rauninni ekkert sem skýrir það, alla vega ekki bakgrunnur hans sem sonur fátækrar móður.

Þetta er spennusaga sem ég mæli alveg með. Þetta er fyrri bókin af tveimur þannig að það á eftir að koma meira og ég verð að viðurkenna að ég bíð eftir næstu bók. Ég verð að fá að vita hvað gerist næst.

Fjórar spennustjörnur 4 out of 5 stars (4 / 5)

Bókin er gefin út af JPV 2016 og er 412 bls.

 

Share on facebook
Deila á Facebook
Share on twitter
Deila á Twitter
Share on pinterest
Deila á Pinterest