Undur er fyrsta bók R.J. Palacio og hefur bókin hlotið fjölda viðurkenninga og verðlauna frá því hún kom út. Þetta er ekki stór bók og hún lætur ekki mikið yfir sér en hún er ótrúlega mannleg og gefandi.
Aðalpersónan er Oggi, 10 ára strákur. Hann er venjulegur strákur sem hefur gaman að því að leika sér og læra en hann á enga vini. Hann gengur ekki í skóla en það er um það bil að breytast. Foreldrum hans finnst tími til kominn að hann fari út á meðal annarra barna og kynnist fleyrum en bara sínu heimafólki.
Í skólanum þarf hann að sanna sig alla daga og þola augngotur og hvísl. Hann er nefnilega ekki venjulegur drengur nema bara inni í sér. Hann er afmyndaður í andliti sem veldur því að önnur börn hræðast hann og vilja ekki vera nálægt honum.
Þetta er saga um vináttu og ást. Kærleika og trúnað. Stundum hló ég upphátt og á öðrum stundum tárfelldi ég en drengurinn Oggi er engum líkur og sannar að þó þú sért öðru vísi að utan þarf það ekki að þýða að þú sért neitt öðru vísi að innan.
Sagan er skrifuð út frá Ogga sjálfum en við fáum líka að sjá inn í huga systur hans og fleiri sem að mínu mati gefur sögunni meiri dýpt. Hvernig er að vera systkinið sem er heilbrigt? Systkinið sem þarf alltaf að sýna styrk þrátt fyrir að vilja kannski stundum bara hnipra sig saman og gráta.
Þetta er fljótlesin bók og erlendis hefur hún verið flokkuð sem „Young Adults“ en hér á landi er enginn slíkur stimpill. Þetta er einfaldlega bók fyrir alla um sögu snertir okkur öll.
Fjórar stjörnur
[usr 4,0]
Anna Kristín Halldórsdóttir er með fimm háskólagráður (án gríns) og hefur m.a áhuga á ljósmyndum, tölvum, fötum og bókum. Hún býr í Hafnarfirði ásamt yndislegri dóttur sem fædd er í Kína og hressum hundi sem elskar útiveru.