Týnda dóttirin eftir Shilpi Somaya Gowda er bók sem enginn má láta fram hjá sér fara. Það lætur ekki mikið yfir henni en ég vil sannarlega hvetja alla til að lesa hana.
Þetta er saga um fjórar sterkar konur sem eru í misstórum hlutverkum í bókinni. Það er Somer hin ameríska, læknir sem þráir að eignast barn með indverskum eiginmanni sínum en missir hvað eftir annað fóstur. Það er Kavita hin indverska, bóndakonan sem eignast stúlkubörn í landi þar sem óskað er eftir drengjum því þeir munu taka við. Það er Asha hin indverskfædda sem elst upp í Ameríku og síðast en ekki síst er það Dadima hin indverska ættmóðir.
Saga þessara fjögurra kvenna er samofin frá fæðingu Öshu þó þær viti ekki allar hver af annarri.
Lífið í Ameríku hjá læknafjölskyldunni og lífið hjá fátæka verkafólkinu í Indlandi og inn í þetta blandast lífsstíll hinna ríku í Indlandi. Þetta er ótrúlega yndisleg og fallega skrifuð saga og í henni rætist að það er ekki alltaf það sama gæfa og gjörvileiki. Lýsingin á fátækrahverfinu í Indlandi er sláandi og hvernig fólkið berst um til að komst af. Flytur úr örbirgð í sveit yfir í það sem manni finnst enn meiri örbirgð í borginni. En í allri eymdinni er samt mannleg reisn og fólkið hefur sínar ástæður og vill eins og fólk allstaðar í heiminum, betra líf fyrir börnin sín.
[youtube]http://youtu.be/SDTzXSLTHMg[/youtube]
En síðan er það sagan á bak við. Hvernig stúlkubörn eru ekki velkomin í ákveðnum menningarsamfélögum, jafnvel svo óvelkomin að það er farið að halla á annað kynið. Hvernig fólk borgar aleigu sína til að skanna kyn hins ófædda barns. Þetta er saga um það hvernig það er að vera kona í landi karlmanna en um leið saga um móðurástina og hverju þarf stundum að fórna til þess að lifa af. Saga um móðurást og missi, sjálfsmyndina og menningu og leitina að sjálfinu og upprunanum. Hvernig það er mikilvægt fyrir alla að skilja hvaðan þeir koma.
Ég grét yfir þessari bók og ég hló líka. Stundum var ég sjokkeruð en ég reyndi samt að dæma ekki því hvernig er hægt að dæma lífið sem aðrir lifa og hvað þeir gera til þess að komast af? Þetta er bók fyrir allar mæður og allar dætur.
Anna Kristín Halldórsdóttir er með fimm háskólagráður (án gríns) og hefur m.a áhuga á ljósmyndum, tölvum, fötum og bókum. Hún býr í Hafnarfirði ásamt yndislegri dóttur sem fædd er í Kína og hressum hundi sem elskar útiveru.