Bækur: Þrettán tímar – Bók sem ég las í einum rykk

Bækur: Þrettán tímar – Bók sem ég las í einum rykk

deonmeyerÉg elska góðar spennusögur, þær eru mín fíkn. Mér finnst því alltaf gaman að finna nýja spennusagnahöfunda. Suma höfunda held ég tryggð við, bók eftir bók. Aðrir eru hinsvegar alveg ferskir eins og Deon Meyer höfundur, Þrettán tíma.

Þetta er önnur bók hans á íslensku en Djöflatindur kom út fyrir sirka tveimur árum og ég las hana á sínum tíma en mundi bara ekki hvernig mér fannst hún. Man það ekki enn. Þessi er hins vegar æsispennandi!

Mér finnst í rauninni engu skipta hvort maður hafi lesið hina fyrst. Hins vegar held ég að það sé aðeins meira mál að lesa Þrettán tíma fyrst og síðan Djöflatind.

Alkóhólistinn Benny sér um fjörið

Eins og nafnið ber með sér þá gerist sagan á þrettán tímum. Sögusviðið er Suður Afríka og Benny Griessel lögregluforingi og alkóhólisti sér um fjörið. Benny þessi á ekki auðvelt líf, barátta hans við fíknina er linnulaus og þegar hér er komið sögu hefur hann þraukað edrú í 156 daga. Konan hans gaf honum sex mánuði til að endurskoða og breyta lífi sínu og það er það sem hann ætlar sér að gera. En það er ekki auðvelt.

Þrettán tímarDagur 157: Þessi tiltekni dagur sem er sá 157undi án áfengis ætlar alls ekki að verða honum auðveldur. Unglingsstúlka finnst myrt og til að kóróna allt saman er hún erlendur ferðamaður. Vinkona hennar er týnd og það virðist sem morðingjarnir séu á eftir henni. Til þess að dagurinn verði enn verri fyrir Benny þá finnst annað lík. Í þetta sinn er það áhrifamaður úr tónlistarheiminum og kona hans liggur útúrdrukkin við hlið hans. Hún neitar allri sök og veit ekki hvað hefur gerst. Það er svo fyrir hann Benny að komst að því.

Suður Afríka er suðupottur

Þetta er ótrúlega spennandi bók. Ég gat ekki hætt lestrinum því ég varð að komast að því hvað var að gerast. Þetta er líka sögusvið sem ég þekki ekki neitt. Suður Afríka er suðupottur og virðist vera allt öðru vísi en allt sem maður þekkir. Meira segja nöfnin eru ólík og óþjál í munni. Hér má sjá viðtal við höfundinn þar sem hann rabbar um bókina og meðal annars þetta sérstaka tungumál sem talað er í S- Afríku, afrikaans.

Það truflaði mig dálítið í byrjun þegar talað var um hvíta menn, litaða menn og blökkumenn og hvernig hver hópur lítur niður á þann næsta. Þetta endaði með að ég leitaði á hinu altumþekjandi interneti, fann þar skýringuna og gat lesið sátt áfram.

Ólíkar löggur

Spennan í þessari bók er gífurleg. Benny er þreyttur karakter en samt athyglisverður. Hann er leiðbeinandi fyrir rannsóknarlögreglumenn sem eru frekar nýir í starfi og það er skemmtilegt að lesa hvernig hann bendir þeim
áfram og reynir að vera við hlið þeirra án þess að taka yfir. Þeir taka misjafnlega vel við enda ólíkir innbyrðis. Benny sjálfur þarf að kljást við áfengislöngunina á ólíklegustu stöðum og við furðulegar aðstæður en hann ætlar að vinna því hann vill konuna aftur. Eða hvað?

Þrettán tímar var ein af þessum bókum sem ég las í einum rykk og hefði alveg verið til í að lesa aðeins meira. Deon Meyer tekst að halda spennunni út bókin og það þrátt fyrir að Benny sé að berjast við áfengið allan tímann. Umhverfið er framandi og algjörlega óskiljanlegt og það gerir dulúðina ennþá meiri. Ég mæli alveg með þessari við spennusögufíkla eins og mig.

Fjórar spennustjörnur 4 out of 5 stars (4 / 5)

Þrettán tímar er gefin út hjá Uglu, 2016

Share on facebook
Deila á Facebook
Share on twitter
Deila á Twitter
Share on pinterest
Deila á Pinterest