Þorsti eftir Esther Gerritsen er afar áleitin bók. Ég get ekki sagt að mér hafi fundist hún skemmtileg og alls ekki fyndin eins og stendur í lýsingunni en það er eitthvað í sögunni sem grípur mann heljartökum og sleppir ekki svo glatt.
Í grófum dráttum fjallar sagan um mæðgurnar Elisabeth og Coco hina 24 ára gömlu dóttur hennar. Coco er í háskólanámi, foreldrar hennar skildu þegar hún var smábarn og samband þeirra mæðgnanna er vægast sagt lítið. En þá gerist sá einstaki atburður að þær hittast á förnum vegi og Elisabeth verður ljóst að hún verður að segja dóttur sinni það sem hún hefur fáum sagt fyrr, að hún sé að deyja úr krabbameini.
Eftir stendur Coco og veit ekki hvernig hún á að bregðast við og í ráðaleysinu tilkynnir hún móður sinniað hún ætli að flytja til hennar. Hún hefur hins vegar ekki búið hjá móður sinni síðan hún var smábarn og þær vita ekkert hvernig þær eiga að haga sér í kringum hvor aðra. Elisabeth er fársjúk en hún er líka vön því að búa ein, vera ein og hvað er hægt að gera þegar barnið vill flytja heim aftur? Annað en umbera það?
Þetta er ótrúlega grípandi saga og skilningsleysið milli persónanna er algjört. Samtölin eru frábær; allir tala í hringi og reyna að stinga ekki á neinu sem skiptir máli.
Nema kannski Coco sem reynir að skilja en skilur alltaf minna og minna.
Það er ákveðin fyrring í gangi og einmanaleiki. Einmanaleikinn er nístandi sár og það er skelfilegt þegar það er auðveldara að tala við klipparann heldur en dótturina. Þegar Klipparinn veit allt um það sem gengur á í lífinu en nánasta fjölskylda veit ekkert. Allir reyna að geðjast öllum en enginn segir neitt sem getur stuðað.
Esther Gerritsen er fædd 1972 og hefur þegar skipað sér sess sem einn helsti rithöfundur Hollendinga af yngri kynslóðinni. Hún hefur hlotið fjölda verðlauna fyrir verk sín en Þorsti er fyrsta bókin sem kemur út eftir hana á íslensku.
Ég gef þessari bók þrjár og hálfa stjörnur.
[usr 3.5]
Anna Kristín Halldórsdóttir er með fimm háskólagráður (án gríns) og hefur m.a áhuga á ljósmyndum, tölvum, fötum og bókum. Hún býr í Hafnarfirði ásamt yndislegri dóttur sem fædd er í Kína og hressum hundi sem elskar útiveru.