Þessi týpa eftir Björgu Magnúsdóttur er sjálfstætt framhald á bókinni Ekki þessi týpa.
Þær eru mættar aftur vinkonurnar Regína, Bryndís, Inga og Tinna. Þær eru enn að kljást við karlmenn eða karlmannsleysi nema Inga sem er að fara að gifta sig.
Þetta er “skvísusaga” sem fjallar á léttan hátt um reynsluheim kvenna.
Margt af því sem þarna gerist hljómar kunnuglega og þetta gæti alveg hafa gerst fyrir einhvern sem maður þekkir. Ég gat alveg glott út í annað yfir lestrinum og skemmti mér ágætlega. Margar af lýsingunum eru stórskemmtilegar og mér finnst Björg hafa eflst frá síðustu bók.
Þarna eru dæmigerðar bernskuvinkonur sem eru ólíkar innbyrðis og hefðu kannski ekki orðið vinkonur ef þær hefðu kynnst sem fullorðnar konur. Alveg eins og í alvörunni.
Þær þrasa sín á milli, skjóta hver á aðra en þegar eitthvað kemur upp á standa þær saman út í eitt. Er það ekki það sem vinskapur gengur út á? Að geta hlegið saman að óförum og bjálfagangi þannig að viðkomandi líði betur á eftir.
Bókin er sett upp þannig að hver og ein segir sína skoðun og í upphafi hvers kafla er smá lýsing á því sem er að gerast hverju sinni. Þetta gengur ágætlega upp finnst mér. Þær eru að vísu með mismunandi vægi þannig að greinilegt er að höfundur leggur meiri áherslu á persónusköpun t.d. Regínu heldur en Tinnu.
Tinna er dálítið afgangs stærð í bókinni þó hún sé fyllilega jafningi í vinkonuhópnum. Maður veit ekki alveg hvað hún er að pæla enda finnst henni þær ekki hlusta neitt á það sem hún hefur fram að færa. En ég sakna þess samt að fá ekki meiri innsýn í það hvers vegna þær eru eins og þær eru, það er eiginlega það eina sem ég set út á.
Þetta er fín bók til að lesa á ströndinni eða í lestinni í sumarleyfinu. Hún krefst ekki mikils af manni og það er hægt að glotta yfir hrakförum vinkvennanna, er hægt að biðja um mikið meira?
[usr 3,0]
Anna Kristín Halldórsdóttir er með fimm háskólagráður (án gríns) og hefur m.a áhuga á ljósmyndum, tölvum, fötum og bókum. Hún býr í Hafnarfirði ásamt yndislegri dóttur sem fædd er í Kína og hressum hundi sem elskar útiveru.