Þegar öllu er á botninn hvolft er glæpasaga sem gerist árið 1950.
11 ára gömul stúlka að nafni Flavia de Luce, efnafræðinörd, verður fyrir þeirri ólukku að koma að manni í andaslitrunum í miðju gúrkubeði fyrir utan herragarðinn þar sem hún býr með föður sínum og tveimur systrum.
Bókin hefur fengið ótrúlega mikla athygli út í heimi og hefur verið seld í yfir 35 löndum og þýdd á 31 tungumáli og á stefnuskránni er að gera sjónvarpsþætti eftir sögunni sem á eflaust að vekja mikla lukku en frásögnin er einstaklega lifandi og sögufléttan skemmtileg.
Flavia de Luce er litríkur karakter, einstaklega sjálfstæð og úrræðagóð. Henni kemur ekki vel saman við systur sínar Ófelíu og Dafní og nær höfundur að lýsa systraókærleiknum á einstaklega litríkan hátt og er auðvelt að setja sig í spor tilfinninga þeirra eftir því um hvern er verið að fjalla.
Bókin er með sterka sögufléttu og fagurfræðilegar setningar og nær höfundur að lýsa umhverfi og mómentum á lýsandi hátt. Ég brosti oft út í annað að lesa setningarnar og samlíkingarnar sem eru settar fram í bókinni og velti ég því fyrir mér hversu frjór höfundurinn er að lýsa sögusviðinu.
Mér fannst reyndar bókin ekki alveg nógu trúverðug þar sem Flavia er að mínu mati of ung persóna í fléttuna en ég hefði viljað sjá hana 15-17 ára, jafnvel sem unga konu 20-25 ára og í leiðinni sjá rómantík á milli Flaviu og rannsóknafulltrúans, en ef til vill eigum við eftir að sjá Flavíu vaxa úr grasi og leysa fleiri glæpi en með hennar einstaklega klára kolli tekst henni að sjálfsögðu að koma upp um vonda kallinn.
Ég get mælt með þessari bók sem glæpasögu, hún rennur ljúflega ofan í mann og er auðlesin og fínt að taka hana með sér í aksturinn út á land í sumar.
Sigrún Þöll Þorsteinsdóttir (f.15 feb 1975 – d. 8 apríl 2014) bloggaði á Pjatt.is í rúmlega tvö ár.
Sigrún Þöll starfaði sem tölvunarfræðingur, var dellukona, tækjasjúk og fagurkeri af lífi og sál. Að eigin sögn fannst Sigrúnu gaman að hlaupa, hjóla, drekka kaffi, huga að heilsunni, prjóna, lesa, taka ljósmyndir, rækta garðinn sinn og fleira og fleira. Blessuð sé hennar minning. Sigrún verður ógleymanleg þeim sem kynntust þessari dásamlegu konu.