Það tók ekki langan tíma að lesa ÞAÐ VAR EKKI ÉG, eftir Kristofer Magnusson þýsk-íslenskan rithöfund og þýðanda sem sló í gegn árið 2010 í Þýskalandi þegar bókin kom út þar í landi.
Bókin fjallar um Jasper – ungan bankamann frá Chicaco, Meike – bókmenntaþýðanda og Henry – aldraðan verðlaunahöfund með ritstíflu.
Þegar ég byrjaði bókina hugsaði ég með mér “ég á ekki eftir að fíla þessa bók”, en vegna þrjósku hélt ég áfram og leið ekki langur tími þar til að ég var farin að finna fyrir spennu, ég vildi vita hvernig persónurnar tengjast í lok bókarinnar og ég dróst alltaf lengra og lengra inn í söguna.
Bókin er örlítið fyrirsjáanleg en ekki á þann hátt að hún er leiðinleg, þvert á móti, sagan er hröð, oft brosir maður út í annað, hún er spennandi og þrátt fyrir ótrúverðugar aðstæður þá er hún trúverðug í lýsingu, persónusköpun og frásögn.
Kíktu á ÞAÐ VAR EKKI ÉG í næstu bókabúð sem er með sófa, sestu niður og gluggaðu í bókina, hún á eftir að koma þér á óvart og þú gengur með hana út.
Sigrún Þöll Þorsteinsdóttir (f.15 feb 1975 – d. 8 apríl 2014) bloggaði á Pjatt.is í rúmlega tvö ár.
Sigrún Þöll starfaði sem tölvunarfræðingur, var dellukona, tækjasjúk og fagurkeri af lífi og sál. Að eigin sögn fannst Sigrúnu gaman að hlaupa, hjóla, drekka kaffi, huga að heilsunni, prjóna, lesa, taka ljósmyndir, rækta garðinn sinn og fleira og fleira. Blessuð sé hennar minning. Sigrún verður ógleymanleg þeim sem kynntust þessari dásamlegu konu.