Það sem ekki drepur mann er sjálfstætt framhald af Millennium þríleiknum sem flestir aðdáendur spennusagna kannast við. Þessi bók er eftir David Lagercrantz en Stieg Larsson höfundur fyrri bókanna lést fyrir aldur fram árið 2004.
Ég ætla ekkert að fara út í rifrildið um erfðamálin sem staðið hefur yfir í mörg ár og varpaði skugga á dauða Stieg Larsson, ég held að það verði nógu margir sem eiga eftir að draga það upp. Og ég ætla heldur ekki að taka neina afstöðu með því að margir segjast ekki ætla að lesa þessa bók, einmitt vegna þessara mála. Nei ég ætla bara að fjalla um þessa bók og ekkert annað.
Málið er að ég er búin að sakna Lisbeth Salander, sakna hennar eins og góðrar vinkonu þó hún myndi nú eflaust ekki gefa mikið fyrir að eiga í vinkonusambandi við bókaorm af mínu tagi. Hvað um það, ég hef saknað hennar og það var því með ómældri gleði og tilhlökkun sem ég settist með þessa bók. Ég náði meira segja að treina mér hana yfir tvo daga því ég tímdi ekki að lesa hana í einum rykk.
Ég byrjaði samt að lesa með blendnum huga, ég meina, við erum að tala um Lisbeth Salander hér og Mikka Blomkvist, er hægt að endurskapa þau með öðrum höfundi? Þegar hér er komið sögu hafa Mikael og Lisbeth ekki talast við í einhver ár og Millennium blaðið berst enn í bökkum. Heimurinn er enn fullur af skúrkum og þegar einn fremsti sérfræðingur heims í gervigreind er myrtur fyrir framan átta ára gamlan, einhverfan son sinn þá fer allt af stað.
Framan af sögunni er hún frekar róleg, miklar útskýringar og stærðfræði og allt það. Þetta hins vegar byggir upp það sem á eftir kemur og allt í einu SLAMM er maður komin á fullt með Lisbeth, með andarteppu í hálsinum og kvöldmatur og þrif löngu gleymd enda hver nennir slíku sem hefur val um rússíbanaferð með uppáhalds ofurkonunni sinni?
Lisbeth er Lisbeth Salander, brjótandi fingur á nauðgurum og berjandi karla sem lemja börn og konur. Mikael Blomkvist er sami hugsuðurinn og fyrr en kannski aðeins til hlés því hann virðist hafa misst neistann sinn.
Misst hungrið sem dreif hann áfram í fyrri sögunum. Erika er aukapersóna í þessari bók. Hún er þarna en meira svona eins og óljós skuggi.
Ef ég á að setja út á eitthvað þá er það kannski að sagan er dálítið lengi að komast á rússíbana flugið.
Ef þetta væri einhver önnur bók væri það allt í lagi en ég var alltaf að bíða eftir Lisbeth. Það er mikið af persónum í mörgum löndum en þræðirnir tengjast eins og köngulóarvefur og auðvitað er það Lisbeth sem dregur þá saman.
Hin óútreiknanlega, ofurpönkaða Lisbeth Salander. Mikael er tengingin hennar við fólkið í kring, hennar samskiptaerfiðleikar koma í veg fyrir mikla tjáningu og þar hoppar Mikael beint inn. Saman eru þau ótrúlega flott teymi og þeim er ekkert óyfirstíganlegt.
Lisbeth og Mikael, velkomin aftur og ég vona að ég þurfi ekki að bíða of lengi eftir næstu heimsókn. Ég ætla ekki að bera þessa sögu neitt saman við fyrri bækur, þessi er ný með nýjum höfundi og hún stendur alveg sem slík. David þú stóðst þig vel!
[usr 4,5]
Anna Kristín Halldórsdóttir er með fimm háskólagráður (án gríns) og hefur m.a áhuga á ljósmyndum, tölvum, fötum og bókum. Hún býr í Hafnarfirði ásamt yndislegri dóttur sem fædd er í Kína og hressum hundi sem elskar útiveru.