Táknmál Blómanna er frumraun Vanessu Diffenbaugh sem fléttar saman fortíð og nútíð í athyglisverðri frásögn sinni um munaðarleysingjann Victoriu. Höfundur hefur sjálfur tekið að sér barn í fóstur með fjölskyldu sinni og tekur, ásamt manni sínum, þátt í starfi til að virkja heimilslaus og munaðarlaus börn til menntunar.
Victoria, sem er bæði bitur og tifinningarík, á erfitt með að mynda tengsl við fólk eftir að hafa alist upp á fósturheimilum frá unga aldri. Kaflaskipti verða í lífi hennar um tíu ára aldur en þá er hún vistuð hjá konu að nafni Elizabeth en sú á eftir að vera mikill áhrifavaldur í lífi hennar. Elizabeth er á einstæðingur og eiga blóm og jurtir hug hennar allan – en hún kennir Victoriu allt sem hún kann og opnar fyrir henni nýja leið til tjáskipta. Leiðir þeirra skiljast á dramatískan hátt en eiga þó eftir að skarast síðar.
Victoria leitar sjálf til blómanna þegar henni líður illa og nýtir þá þekkingu sem hún öðlaðist hjá Elizabeth sem sitt haldreipi í lífinu. Einn góðan veður dag skýtur svo Grant upp kollinum.
Grant kynntist hún sem barn í vistinni hjá Elizabeth og á hann eftir að valda straumhvörfum í lífi hennar, enda fjallar stór hluti sögunnar um hvort Victoria getur leyft sér að elska Grant og verða sjálf hluti af alvöru fjölskyldu. Saman deila þau miklum áhuga á blómum og þýðingu þeirra, en verða að lokum tengdari en þau hefði nokkurn tíma órað fyrir.
Tilfinningarík og heillandi saga um mannlegt eðli og breyskleika eins og hann gerist bestur. Í lok bókarinnar lætur höfundur fylgja orðabók með þýðingum á hverju blómi og jurt fyrir sig.
…“Ananas; Þú ert fullkominn, Piparminta; Tilfinningahiti, Lúpína; Aðdráttarafl.
Það er kannski spurning um að mæta með ananas á næsta stefnumót?
Hér er ‘treiler’ fyrir bókina…
[youtube]http://www.youtube.com/watch?v=AReLqTdEtAk[/youtube]
Sigrún er grafískur hönnuður að mennt en hefur eytt sl.tveimur árum í húsfreyjustörf og barneignir. Henni líður best með bækur í kringum sig, þá helst við arineld eða ofaní baðkeri. Ferðalög og munaður af ýmsu tagi eru ofarlega á óskalistanum auk þess sem hún hefur yndi af að gera eitthvað af sér. Sigrún er naut.