Svona á að elska – leiðarvísir fyrir eldheita elskendur eftir Melissa Heckscher er sjóðheit bók með öllum þeim upplýsingum sem elskendur þurfa að vita og kunna
Bókin er skemmtilega uppsett með myndum og útskýringum á öllu sem viðkemur samböndum og hvernig maður á að koma sér í þau eða úr þeim. Allt frá því hvernig á að daðra, tæla til sín heitan elskhuga, binda bindishnúta, vinsælar stellingar og staðir til að krydda sambandið og hvernig á að klæða sig eftir mismunandi tilefnum.
Sumar af leiðbeiningunum eru algjörlega dásamlegar og geta kætt mann ótrúlega mikið. Þarna er farið um víðan völl og til dæmis minnst á hvernig á að búa til ætar nærbuxur handa sykurpúðanum þínum. Nákvæmar lýsingar á því hvernig hægt er að snyrta þitt eigið prívatsvæði..nú eða hans og dásamleg nöfn eru á mismunandi munstrum fyrir hárlínuna.
Eitt af ráðunum er hvernig er best að liggja í skeiða stellingunni en fólk á það til að liggja algjörlega í keng og halda að það sé hin vinsæla skeiðarstelling (að spúna). Annar aðilinn liggur allur skakkur þannig að hendurnar á viðkomandi verða algjörlega blóðlausar og nálardofi gerir vart við sig. Þá vill oft verða hálfgerð kaos í rúminu og allt fer í algjört rugl.
En eins og höfundurinn segir sjálfur þá eru einfaldar leiðbeiningar um 152 atriði í bókinni, sum siðsöm og önnur sjóðheit. Samt ekkert sem særir blygðunarkennd hjá fólki. Bara falleg og mörg ferlega skemmtileg ráð fyrir fólk á öllum aldri.
Hver kannast ekki við fótadaður? En hefurðu prófað það?
Í bókinni finnurðu fullkomnar leiðbeiningar á þessu snilldar og leyndardómsfulla daðri því ef þú ætlar að prófa þá er nú betra að gera þetta rétt svo þú sparkir óvart ekki í einhvern viðkvæman blett hjá karlmanninum. Það gæti misskilist og endað á einhverjum vandræðagangi.
Bráðskondin og heit bók sem vert er að glugga í og prófa eitthvað af þeim fjölmörgu ráðum til að hressa aðeins upp á lífið og tilveruna og frábær tækifærisgjöf.
Guðrún J. Halldórsdóttir er innanhúss- og húsgagnahönnuður. Sporðdreki og Tígur takk.