Þegar ég las bók Eddu Andrésdóttur, Til Eyja, var engu líkara en ég heyrði djúpa og hljómfagra rödd hennar fara ljúflega með textann.
Andlit og rödd Eddu er eins og ákveðið stef í gegnum nútíma fjölmiðlamennsku; hún færir okkur fréttir af skjánum örugg í fasi og fagmannleg en Edda Andrésar hefur líka unnið við öflun frétta og hún var einmitt blaðamaður á dagblaðinu Vísi þegar Eyjagosið mikla átti sér stað.
Þegar Vestmannaeyjar urðu miðja alheimsins fór unga blaðakonan á æskustöðvarnar en hún hafði eytt mörgum sumrum þar hjá ömmu sinni á Kirkjubæ sem í minningu Eddu er eins og sjálf Heimaey:
,,Eins konar undirstaða á þeim tíma þegar eldra fólk var akkeri í lífinu og enn var borin takmarkalaus virðing fyrir ellinni og lífsreynslunni. Sterk og örugg – eins og eyjan sem veitti jafnvel hafinu sjálfu fyrirstöðu þegar það gerði áhlaup sín á kletta hennar, klappir og svartar urðir.“
Rokið til Eyja á lakkstígvélum
Það er í byrjun janúar 1973 sem heiðríkar æskustöðvarnar voru orðnar að ógnandi, allsherjar eldstöð. Hugrakkir fréttamenn víluðu ekki fyrir sér að fara í efnisöflun út í Eyjar og voru þar á meðal annarra reynsluboltar á borð við Elínu Pálmadóttur og Vilborgu Harðardóttur.
Edda segist hafa verið hálffeimin við þær sjóuðu blaðakonur í fyrstu. Hún rauk af stað með flugi til Eyja klædd fínriffluðum flauelsbuxum, rúllukragabol, búrgundarrauðum lakkstígvélum og svartri hálfsíðri kápu. Sú góða yfirhöfn hafði víst oftar en einu sinni hangið á snaga á Glaumbar …
En viðeigandi klæðnaður og annar undirbúningur er lúxus sem á lítið skylt við líf blaðamannsins sem þarf að fylgja fréttinni skref fyrir skref og láta allt annað lönd og leið. Andrúmsloftið í Eyjum var þrungið myrkri og mekki. Eftir tuttugu mínútna flug frá Reykjavík var engu líkara en komið væri á aðra plánetu.
,,Enn átti Óli blaðasali eftir að kalla upp fyrirsagnir forsíðunnar þar sem hann stóð við Reykjavíkurapótek, á horni Pósthússtrætis og Austurstrætis, og hafði selt blöð frá barnsaldri. Fyrirsagnir frétta sem voru stærri en öll tíðindi heimsins þennan dag, ef miðað er við Wikipediu. Fyrir utan það eitt að Nixon Bandaríkjaforseti tilkynnti að náðst hefði samkomulag um friðarsamninga í Víetnam.“
Askan á fingurgómum lesandans
Edda Andrésdóttir hefur sérlega vandaðan stíl og frásagnir hennar verða ævinlega myndrænar og ljóslifandi. Henni er líka einkar lagið að fanga tíðarandann, svo vel reyndar, að lesandinn heyrir bókstaflega fyrirsagnaköll Óla blaðasala, finnur ilminn af pönnukökubakstri í Kirkjubæ og ösku eldgossins sáldrast um síður bókarinnar.
„Edda skrifar lipran og góðan stíl og fyrir vikið er bókin mjög læsileg og skemmtileg fyrir þá sem unna Eyjum.“
Kolbrún Bergþórsdóttir / Morgunblaðið
„Listilega ofin.“
Gunnþóra Gunnarsdóttir / Fréttablaðið
Hrund Hauksdóttir er blaðamaður, hljóðbókalesari, nautnaseggur og pjattrófa. Hún stundaði háskólanám í fjölmiðlun í Bandaríkjunum og félagsfræði við HÍ. Hrund ritstýrði Vikunni frá 2000-2002 og var eins konar partípenni sunndagsútgáfu Morgunblaðsins 2006-2009, þar sem hún skrifaði undir heitinu Flugan en undanfarin 6 ár hefur Hrund skrifað kynningarefni fyrir Frjálsa Verslun.
Nýjasta Pjattrófan er miðbæjarmaddama sem les bækur af ástríðu, stundum nokkrar í einu, enda er hún í tvíburamerkinu og skiptir hratt og auðveldlega um skoðun.