Sumarhús með Sundlaug eftir Herman Koch fjallar um heimilislækninn Marc sem er hamingjusamlega giftur á tvær undurfagrar dætur og er mjög farsæll í starfi.
Líf hans breytist þegar hann kynnist sviðsleikaranum Ralph og eyða þeir ásamt fjölskyldu þeirra og vinum tíma saman í sumarhúsi með sundlaug þar sem óhugnanlegir atburðir gerast.
Marc er góður heimilislæknir meðal annars vegna þess að hann gefur sjúklingum sínum tíma, hlustar á þá, er skipulagður og með því aflar hann sér vinsældar hjá fræga fólkinu. Það sem sjúklingar hans fá aftur á móti ekki að kynnast í fari Marc er að hann oft á tíðum fyrirlítur hvernig mannskepnan fer með líkama sinn, hvað hann hugsar meðan hann skoðar þá og oft á tíðum gengur höfundur bókarinnar langt í lýsingum sínum sem gerir það að verkum að lesandinn á erfitt með að meta hvort honum líkar vel við Marc eða ekki.
Þegar Ralph kemur til Marc vegna meins verða þeir kunningjar og í kjölfarið eyða þeir og fjölskyldur þeirra tíma saman í sumarhúsi þar sem við fáum að kynnast hvernig manneskjan getur í raun verið tvöföld og var ég allan tímann sem ég las bókina að reyna að átta mig á því hvað mér fannst um þá karaktera sem komu fram í bókinni og hvert þeirra rétta eðli var.
Ég held það fari ekki fram hjá neinum sem les bókina að það er karlmaður sem semur hana og er enganvegin rembingur í gangi að tipla á tánum í orðum og lýsingum hvað varðar viðhorf karla til kvenna sem hafa verið fyriritin í samfélaginu okkar í dag.
Mér finnst höfundur segja margt upphátt sem ekki má segja í dag án þess að allt verði vitlaust og reynir hann virkilega á skoðanir og viðhorf manns til samfélagslegra hluta við lestur bókarinnar.
Bókin er spennandi, heldur manni við efnið og stundum gengur hún örlítið fram af manni í lýsingum á hlutum sem maður vill helst ekki hugsa um, en einhverra hluta vegna finnur maður til samkenndar með persónum bókarinnar um leið og maður fyrirlítur þá þar sem höfundi tekst að leiða mann inn í hugarheim þeirra á sannfærandi hátt.
Sigrún Þöll Þorsteinsdóttir (f.15 feb 1975 – d. 8 apríl 2014) bloggaði á Pjatt.is í rúmlega tvö ár.
Sigrún Þöll starfaði sem tölvunarfræðingur, var dellukona, tækjasjúk og fagurkeri af lífi og sál. Að eigin sögn fannst Sigrúnu gaman að hlaupa, hjóla, drekka kaffi, huga að heilsunni, prjóna, lesa, taka ljósmyndir, rækta garðinn sinn og fleira og fleira. Blessuð sé hennar minning. Sigrún verður ógleymanleg þeim sem kynntust þessari dásamlegu konu.