Stundarfró eftir Orra Harðarson hefur slegið í gegn hjá mörgum en bókin náði ekki alveg að grípa mig. Hún rennur svo sem alveg ágætlega en persónurnar náðu alls ekki til mín.
Dísa og Arninbjörn bera söguna uppi þó kynni þeirra séu ekki löng og afleiðingarnar af kynnum þeirra koma síðar fram.
Arinbjörn er þessi dæmigerði drykkjumaður sem tekst alltaf að sannfæra sjálfan sig um að hann þurfi bara einn enn og þá takist honum að snúa blaðinu við – og eins og öðrum sem eiga við drykkjuvandamál að stríða þá er leiðin hans sú rétta þó eftir hann liggi sviðin jörð.
Líf persónanna snýst um drykkjuskap í hinum ýmsu myndum. Sumir eru ofdrykkjumenn, aðrir á mörkum þess og restin hefur gaman að því að skvetta ærlega í sig. Þetta er síðan kryddað með ýmsu smávægilegu, nauðgun af hálfu bróðurs, vændi, einhver konar samkynhneigð (sem ég var þó alls ekki viss um að væri samkynhneigð heldur fannst mér frekar að um væri að ræða hentisemi) og þetta truflaði mig.
Allir þessir atburðir gætu nefnilega alveg gengið upp einir og sér en saman komnir í einni bók, þá féllust mér alveg hendur. Ég las samt bókina alla en var mjög ósátt við lokatburðina því þeim er slengt fram og síðan bara, kviss, bang, búmm sagan er búin. Bara eins og ekki hafi verið til fleiri blöð til að skrifa á.
Æ. Þetta er kannski ósanngjarnt af mér því þetta er sannarlega ekki slæm bók og allt í kringum mig er fólk sem heldur ekki vatni yfir henni –en það er líka bara fínt að við séum ekki öll með sama smekkinn.
Þeir lesendur sem hafa sama smekk og ég átta sig þá betur á því hvort okkar sé svipaður 😉
Tvær og hálf stjörnu fær Stundarfró Orra Harðarsonar frá mér.
[usr 2,5]
Anna Kristín Halldórsdóttir er með fimm háskólagráður (án gríns) og hefur m.a áhuga á ljósmyndum, tölvum, fötum og bókum. Hún býr í Hafnarfirði ásamt yndislegri dóttur sem fædd er í Kína og hressum hundi sem elskar útiveru.