Stúlkan með náðargjafirnar eftir M. R. Carey er framtíðarskáldsaga og því alls ekki fyrir alla. Ég er hins vegar alltaf dálítið veik fyrir svona sögum og hef gaman að því að sjá hvernig höfundar ímynda sér framtíðina.
Bókin fjallar um Melanie, tíu ára stúlkubarn sem hefur gaman að því að læra og elskar kennarann sinn. Á hverjum degi er hún sótt í klefann sinn og liðþjálfinn miðar á hana byssu meðan hún er færð yfir í kennslustofuna. Hún grínast með það að hún bíti ekki en þeir hlæja aldrei. Af hverju eru þeir hræddir við hana?
Bókin er vel skrifuð og það er auðvelt að láta sér líka við Melanie og kennarann hennar. Liðþjálfinn er fautalegur til að byrja með en maður skilur samt hvers vegna hann lætur svona. Þetta eru ekki auðveldir tímar. Svo mikið er víst.
Það er erfitt að skrifa um þessa bók án þess að gefa upp plottið þannig að ég ætla ekki einu sinni að reyna meira. Verð þó að segja það að þeir sem elska góðar hryllings, spennu- framtíðarsögur, fá fullt fyrir peninginn hér.
Mér finnst plottið skemmtilegt, fullt af ógnvekjandi atriðum og einhverju sem skýst fram hjá… rétt handans sjónsviðsins. Kannski ekki bók til að lesa í skammdegismyrkrinu en fín í vorkuldanum. Fjórar og hálf stjarna.
[usr 4,5]
Anna Kristín Halldórsdóttir er með fimm háskólagráður (án gríns) og hefur m.a áhuga á ljósmyndum, tölvum, fötum og bókum. Hún býr í Hafnarfirði ásamt yndislegri dóttur sem fædd er í Kína og hressum hundi sem elskar útiveru.