Stúlkan í trénu, eftir danska höfundinn Jussi Adler Olsen, er sjötta bókin í seríu um þríeikið Carl Mørck, Rose og Assad. Mér finnst Jussi afburða góður höfundur og mér finnst þessi þrenna, Carl Rose og Assad mjög skemmtileg en… ég varð fyrir vonbrigðum með þess bók. Það er bara þannig.
Fyrri bækurnar las ég flestar í einum rykk og fékk ekki nægan svefn það kvöld sem ég byrjaði á bókinni. Þessi greip mig ekki þannig og ég varð aðeins að ýta á sjálfa mig að halda áfram að lesa. Hún er ekki leiðinleg, það er alls ekki það, en það vantar eitthvað, einhvern neista sem er í hinum bókunum.
Carl, Rose og Assad eru í deild Q sem sér um gömul lögreglumál sem ekki hefur tekist að leysa. Árið 1974 finnst lík ungrar stúlku upp í tré en það hafði verið keyrt á hana af svo miklum hraða að hún hentist upp í tréð og lést þar.
Málinu var lokað sem slysi og ökumaðurinn fannst aldrei. Einn lögreglumaður er þó viss um að ekki hafi verið um slys að ræða og vill hann að Carl og félagar taki málið upp að nýju. En hvers vegna ættu þau að gera það þegar það er ekkert sem bendir til annars en um slys hafi verið að ræða?
Sagan er dálítið lengi að byrja en þegar hún loksins hefur sig af stað er hún ágæt. Spurning hvort hún hefði þurft að vera svona löng? Ef hún væri styttri þá væri hún kannski meira spennandi, það er að segja hún færi þá fyrr á flug.
Ef þú elskar þennan bókaflokk þá verður þú að lesa þessa en ef þú hefur ekki lesið neina aðra eftir höfundinn þá ráðlegg ég þér að byrja ekki á þessari sem fyrstu bók.
Hættan er sú að þú myndir þá missa af þessum frábæru sem komu fyrst. Ég gef henni þrjár og hálfa stjörnu.
[usr 3,5]
Anna Kristín Halldórsdóttir er með fimm háskólagráður (án gríns) og hefur m.a áhuga á ljósmyndum, tölvum, fötum og bókum. Hún býr í Hafnarfirði ásamt yndislegri dóttur sem fædd er í Kína og hressum hundi sem elskar útiveru.