Stúlka með maga eftir Þórunni Erlu- og Valdimarsdóttur er um margt merkileg saga.
Þetta er skáldættarsaga en þá er byggt á bréfum og fjölskyldusögum og skáldað inn á milli. Sagan er sögð með rödd móður Þórunnar, Erlu Þórdísar Jónsdóttur sem fædd er 1929 í Reykjavík. Hún segir þar sína eigin sögu og sögu foreldra sinna og forfeðra lengra aftur í tímann.
Þetta er rosalega mikil saga. Á tímabili var ég nærri búin að gefast upp þegar upptalningin á ömmum og öfum stóð sem hæst, held að sagan hefði ekki liðið neitt fyrir það þó sá kafli hefði verið aðeins styttur. En ég þraukaði sem betur fer því þetta er hin fínasta saga. Merkilegt að lesa um hvernig ýmsir hlutir hafa verið í Reykjavík á árum áður. T.d. að það var til siðs hafa stúlku sér til aðstoðar þó konan væri ekki útivinnandi og í rauninni óhugsandi að gift kona væri útivinnandi.
Skemmtilegt að lesa hvernig flinkir menn eins og Alexander, afi Erlu, gátu fengið nóg að starfa um allt land og við ólíklegustu hluti. Og hvernig börnin hjálpuðu foreldrum sínum ef þau höfðu einhvern möguleika á því, sérstaklega synirnir. Fengu ekki að fara að heiman nema undir ströngu eftirliti ef svo má segja. Þeim bar sonarskylda til að aðstoða foreldra sína.
Og mér fannst mjög áhugavert að lesa um sýfilis og afleiðingarnar sem sá sjúkdómur hefur haft á líf fólks, þetta eru hlutir sem ég vissi ekki neitt um. Ljótur fannst mér kaflinn þegar rektor MR neitaði að taka í hönd Erlu við útskrift hennar af því hún hafði eignast barn um veturinn og neitað að hætta í skólanum. Það er ekki alltaf fínasta fólkið sem er best innréttað.
Þetta er stór og mikil bók og gaman að lesa hvernig Þórunn fléttar saman skáldskap og þeim heimildum sem hún hefur fundið um fjölskyldu sína. Það skín í gegn hvað fólk á Íslandi hefur átt ótrúlega erfitt á margan hátt en um leið fundið tíma til skemmtunar og átt í miklu meiri samskiptum heldur en algengt er í dag.
Viðtal við Þórunni í Víðsjá hjá RÚV: http://www.ruv.is/bokmenntir/stulka-med-maga
Anna Kristín Halldórsdóttir er með fimm háskólagráður (án gríns) og hefur m.a áhuga á ljósmyndum, tölvum, fötum og bókum. Hún býr í Hafnarfirði ásamt yndislegri dóttur sem fædd er í Kína og hressum hundi sem elskar útiveru.