Sagan Spádómurinn eftir Hildi Knútsdóttur gerist í heimi þar sem mannfólkið fær við fæðingu vængi að gjöf. Þetta er vegna þess að ógn stafar að fólkinu vegna spádóms sem var fluttur nítíu árum áður en sagan gerist.
Bókin er fyrir börn í kringum 11 ára aldurinn en eftir að hafa lesið bókina þá myndi ég segja að níu ára krakkar hafa ábyggilega jafn gaman að bókinni og þeir sem eldri eru.
Textinn í bókinni flýtur svakalega vel og komst ég að því þegar sonur minn bað mig um að lesa upphátt fyrir sig part úr bókinni. Þá varð greinilegt hvað orðin, á sannfærandi hátt, tóku við eitt af öðru og mynduðu flotta heild í sköpun bókarinnar.
Það má segja að þetta sé dæmigerð ævintýrasaga með vonda og góða kallinum ásamt bjargvætti sem fær það hlutverk að frelsa heiminn frá ógninni sem stafar af vonda kallinum en Hildur er með ýmislegt nýtt í pokahorninu sem gerir það að verkum að bókin er spennandi og skemmtileg.
Mér fannst hugmyndin góð – Hvers vegna mannfólkið þurfti á vængjum að halda, en í fyrstu er það hulið Kolfinnu aðalpersónu sögunnar. Þegar leyndarmálinu er uppljóstrað fer að færast spenna í bókina sem heldur lesandanum með nefið ofan í henni til endaloka.
Það er hægt að mæla með bókinni Spádómurinn í jólapakkann hjá ungum krökkum í ár, hún er góð afþreying.
Sigrún Þöll Þorsteinsdóttir (f.15 feb 1975 – d. 8 apríl 2014) bloggaði á Pjatt.is í rúmlega tvö ár.
Sigrún Þöll starfaði sem tölvunarfræðingur, var dellukona, tækjasjúk og fagurkeri af lífi og sál. Að eigin sögn fannst Sigrúnu gaman að hlaupa, hjóla, drekka kaffi, huga að heilsunni, prjóna, lesa, taka ljósmyndir, rækta garðinn sinn og fleira og fleira. Blessuð sé hennar minning. Sigrún verður ógleymanleg þeim sem kynntust þessari dásamlegu konu.