Danski rithöfundurinn Jussi Adler – Olsen starfaði sem blaðamaður áður en hann hellti sér út í heim skáldsagnaskrifa. Bækur hans um Deild Q hjá dönsku lögreglunni í Kaupmannahöfn hafa slegið í gegn með miklum látum og Carl Mörk, aðalsöguhetjan, er orðinn eftirlætis skáldsagnapersóna fjölmargra dyggra lesenda.
Ég var annars hugar í bókabúðinni á Leifsstöð í fyrra, rétt fyrir flug suður á bóginn, þegar ég greip bók hans Konan í búrinu (sú fyrsta um Deild Q) og ákvað að gefa enn einum norrænum krimmahöfundi sjéns.
Ég hóf svo lesturinn liggjandi í volgum sandi og heitt sólskinið sá um að ylja mér þegar lesningin framkallaði nær stöðugan spennuhroll.
Það er skemmst frá því að segja að ég var orðin hressilega útitekin, ef ekki aðeins brunnin, eftir að hafa gleymt mér í æsispennandi lestri heilan dag á ströndinni og þakkaði Eucerin sólarvörninni að ekki fór verr.
Þegar næsta bók Jussi kom út, Flöskuskeyti frá P, þorði ég ekki annað en að hafa hemil á væntingum mínum … gæti hann mögulega skrifað aðra jafn spennandi sögu?
Já, það gat hann og er engum blöðum um það að fletta að Jussi Adler-Olsen er réttnefndur konungur spennusagnanna!
Veiðimennirnir komu svo í kjölfarið og nú síðast kom út á íslensku bókin Skýrsla 64. Eins og mig klæjaði í fingurgómana að sökkva mér ofan í þann lestur, tók ég þá ákvörðun að eiga bókina til góða í sólarlandaferð sem er fyrirhuguð í lok maí. Að endurtaka strandarsæluna. Svo ég fjárfesti í bókinni og faldi hana fyrir sjálfri mér inni í fataskáp.
Ég var nokkuð stolt af hversu agaður spennusagnalesari ég væri en smátt og smátt varð löngunin svo sterk að ég sprakk eitt kvöldið og gaf mig spennunni á vald. Upplifunin var jafn sterk á köldu íslensku aprílkvöldi og suður á Spánarströndum forðum og hitapoki til fóta kom í stað sólarvarnar.
Ofbeldi og ýmis konar valdbeiting gagnvart lítilmagnanum er gjarnan þema bóka Adler-Olsen og Skýrsla 64 er þar ekki undantekning en hún segir frá skelfilegum örlögum Nete Hermanson, sem var m.a. vistuð á ríkisstofnun fyrir svokallaðar óæskilegar konur á einangraðri eyju í Danmörku á sjötta áratug síðustu aldar. Þar upplifðu margir einstaklingar helvíti á jörð.
KOSTULEGIR KUMPÁNAR
Carl Mörk, yfirmaður Deildar Q, hefur bækistöðvar í kjallara höfuðstöðva lögreglunnar í Kaupmannahöfn en deildin sú sér um endurupptöku og rannsókn gamalla sakamála. Þangað rata nokkur mannshvörf í Skýrslu 64 sem öll áttu sér stað á sama tíma árið 1987 og virðast hafa einhverja tengingu. Mörk fer á stúfana með teymi sitt sem samanstendur af geðþekka múslimanum Assad og Rose; undarlegri týpu sem lumar á fleirum en einum persónuleika. Sterklega er gefið í skyn að báðir þessir skringilegu aðstoðarmenn Carls lumi á leyndarmálum og fáum við að vita aðeins meira um orsakir undarlegheita Rose í þessari bók.
KLÁRLEGA KRÆSILEGASTA SUMARLESNINGIN Í ÁR
Enn á þó eftir að ljóstra upp um fortíð og einkahagi Assads en hann er tvímælalaust einhver skemmtilegasti lögreglumaður spennubókaheimsins. Hann er með aðstöðu í kústaskáp kjallarans, býður oft upp á sterk, leyndardómsfull te og brennir reykelsi eins og enginn sé morgundagurinn. Hann gætir þess að bænamottan sé ævinlega innan seilingar og er annt um að tala góða dönsku, sem Carl leggur sig í líma við að leiðrétta við hvert tækifæri. Þeir tveir eiga í kostulegu sambandi sem gefur spennunni oft mjög húmorískan blæ.
Skýrsla 64 er klárlega sumarlesningin í ár; hvort sem kúrt er í tjaldi eða legið á sólarströnd. Munið bara eftir sólarvörninni!
Hrund Hauksdóttir er blaðamaður, hljóðbókalesari, nautnaseggur og pjattrófa. Hún stundaði háskólanám í fjölmiðlun í Bandaríkjunum og félagsfræði við HÍ. Hrund ritstýrði Vikunni frá 2000-2002 og var eins konar partípenni sunndagsútgáfu Morgunblaðsins 2006-2009, þar sem hún skrifaði undir heitinu Flugan en undanfarin 6 ár hefur Hrund skrifað kynningarefni fyrir Frjálsa Verslun.
Nýjasta Pjattrófan er miðbæjarmaddama sem les bækur af ástríðu, stundum nokkrar í einu, enda er hún í tvíburamerkinu og skiptir hratt og auðveldlega um skoðun.