Skrifað í stjörnurnar eftir John Green er í flokki bóka sem kallast á ensku „young adult“ eða unglingasögur. Þetta er ein af þessum ljúfsáru bókum sem unun er að lesa.
Ég hló og flissaði og nokkrum síðum seinna fékk ég kökk í hálsinn og tár í augun. Þetta er ein af þessum bókum sem er gaman að lesa þó hún sé um afar erfitt efni eða barn með krabbamein.
Hazel er 16 ára og er með ólæknandi krabbamein en foreldrar hennar gera allt sem þau geta til að lengja líf hennar á meðan þau bíða eftir kraftaverki.
Hún er ekkert mikið fyrir að blanda geði við fólk en fer þó í stuðningshóp fyrir krabbameinsgreind börn að kröfu móður sinnar.
Hún fær ekki mikið úr þessum stuðningshópi en eitthvað gerist þegar dag einn birtist Augustus Waters. Hinn frábæri, glæsilegi og skemmtilegi Augustus! Lífið fer á flug og allt getur gerst.
Þetta er falleg saga og ljúf og ég gat ekki annað en sett mig í spor mæðranna í bókinni, hvernig þær fóru aldrei langt frá börnum sínum og pössuðu upp á að allt væri í lagi, eða eins miklu lagi og aðstæður bjóða upp á þegar þú ert með langveikt barn sem jafnvel er komið með dauðadóm.
Það eru skemmtilegir karekterar í bókinni.
Hazel sjálf er skemmtileg og Augustus þessi draumadrengur sem allir vilja fá í fjölskylduna. Isacc drengur úr stuðningshópnum sem er við það að verða blindur berst við sína drauga, heppinn að eiga vin sinn Augustus sem hlífir honum í engu.
Skemmtileg bók sem fer upp allan tilfinningaskalann aftur og aftur. Spilar mann eins og strengjahljóðfæri og maður getur ekki hætt.
Fær fjórar og hálfa stjörnu frá mér.
[usr 4.5]Anna Kristín Halldórsdóttir er með fimm háskólagráður (án gríns) og hefur m.a áhuga á ljósmyndum, tölvum, fötum og bókum. Hún býr í Hafnarfirði ásamt yndislegri dóttur sem fædd er í Kína og hressum hundi sem elskar útiveru.