Sjóræninginn eftir Jón Gnarr er með skemmtilegustu bókum sem ég hef lesið upp á síðkastið og margar ástæður fyrir því. Sumar næstum því persónulegar og aðrar ekki.
Persónulegu ástæðurnar tengjast því helst að undirrituð og höfundurinn ólust upp á svipuðum tíma í svipuðu umhverfi og við svipaðar aðstæður. Með öðrum orðum þá “tengdi” ég oft hrikalega mikið við það sem Jón skrifaði um. Það hefði eins getað verið ég sjálf sem skrifaði heilu kaflana og sannarlega ekki oft sem maður upplifir það við lestur bókar – en ef, og þegar, það gerist þá er það auðvitað stórkostlegt og um leið verður bókin með þeim bestu sem maður hefur lesið.
Hinar ástæðurnar eru margar.
Jón er til dæmis alveg endlaust fyndinn eins og allir vita og einhvernveginn svo áreynslulaust. Eins og hann sé bara að segja frá, án þess að vilja endilega vera fyndinn en svo verður hann það bara alveg óvart þannig að maður tárast úr hlátri.
Þetta gerðist nokkrum sinnum við lestur bókarinnar. Til dæmis þegar hann fór í fermingarmyndatökuna og þegar hann hélt tónleika með hjómsveitinni Nefrennsli hjá útideildinni.
Ég “slysaðist” líka til að byrja að lesa upp úr Sjóræningjanum fyrir átta ára dóttur mína sem varð alveg “húkkt” og bað mig sífellt um að lesa meira.
Hún hefur alltaf haft áhuga á pönki og vildi helst heyra kafla frá Hlemmi nokkrum sinnum. Henni þótti líka mjög krassandi að hugsa til þess að ein vinkona okkar, mamma Óskars Tinna vinar hennar, er einmitt vinkona Jóns frá Hlemmtímanum.
Bestur þótti henni samt kaflinn um fermingarmyndatökuna. Gríp hér niður í hann þar sem Jón er búinn að stilla sér upp fyrir framan ljósmyndarann, virkilega ósáttur í brúnum jakkafötum og með hárið kyrfilega greitt niður af móður sinni:
-Jæja, Jón. Hvað segirðu gott? Ertu að æfa fótbolta?
-Nei.
-Ertu í einhverjum íþróttum?
-Jæja Jón. Finnst þér gaman í skólanum?
-Nei.
Hann stillti myndavélina og kíkti í linsuna.
-Hvað er uppáhalds fagið þitt í skólanum?
-Ekkert.
-Nú.
Hann séri mér aðeins og fór svo aftur að myndavélinni.
-Hvað ætlar þú að verða þegar þú ert orðinn stór?
-Ekkert.
Ég reyndi að svara með stuttum einsatkvæðisorðum. Ljósmyndarinn lét ekki á neinu bera, gekk aðeins frá myndavélinni og dró svo skyndilega upp einhverja dúkku sem hann hafði þrætt upp á höndina á sér og sagði svo hátt og snjallt.
-Halló, Jón!
Ég sprakk úr hlátri. Þetta var óvænt og fyndið. Og um leið komu flössin hvert á fætur öðru. Djöfull varð ég svekktur. Búið að plata mig enn eina ferðina. Ég yrði ekki töff heldur eins og hlægjandi hálviti í jakkafötum á öllum myndunum. Þvílíkur bömmer! Svo kom óhugnarleg staðfestingin þegar mamma kom heim með myndirnar úr framköllun. Þar var pönkarinn sjálfur, Jónsi pönk, í brúnu jakkafötunum og húðlitaðri skyrtunni með Þorsteinsn Pálssonar gleraugun og í þokkabót brosandi eins og fífl! Þvílík skömm.
Tilvistakreppa fermingardrengsins í allri sinni dýrð og þetta er bara brot. Sjóræninginn er einskonar óður til tilvistarkreppu litla pönkarans sem passar ekki inn. Hún er líka um einelti, sambandsleysi við foreldra, uppreisn, einmanaleika, skólakerfi sem virkar illa og það að vera á skjön.
Það eina (og það var bara eitt) sem truflaði mig agnarögn við bókina voru löng skrif um pönk og anarkisma í upphafi og nokkuð langt inn í bókina en Jóni er sá kismi einkar hugleikinn.
Annars er Sjóræninginn hrikalega skemmtileg og auðlesin saga. Frásögnin frábærlega einlæg og í sjálfu sér skyldulesning öllu áhugafólki um samtímann sem vill kynnast borgarstjóranum sínum betur. Það væri gaman ef allir pólitíkusar væru svona einlægir og opnir.
En með Jón, það besta er eiginlega sú staðreynd að þessi tilvistarkreppti, anarkíski, rauðhærði unglingur er orðin borgarstjóri, sem segir okkur að fátt er svo með öllu illt að ekki boði nokkuð gott.
Ég hlakka til að lesa fleiri bækur þessa hugrakka og skemmtilega manns.
Ég er af X-kynslóð, elska 70’s tónlist, finnst gott að fara í sund á kvöldin og á erfitt með arfa i görðum. Kýs fjölbreyti í lífið. Kann eina Eminem plötu utanað. Hef thing fyrir Marilyn Monroe, áhuga á feminisma og svona sitthvað fleira.