Sannleikurinn um mál Harrys Quebert eftir Joël Dicker er margverðlaunuð ástar- og glæpasaga sem hefur farið sigurför um allan heiminn. Í fyrstu átti ég mjög erfitt með að sjá í hverju þetta lægi, það tók mig viku að lesa fyrstu 100 blaðsíðurnar (bókin er 684 síður) en þá small eitthvað og ég gat ekki slitið mig lausa.
Hún fjallar um Marcus Goldman rithöfund sem slær í gegn með sinni fyrstu skáldsögu en getur svo ekki skrifað meira. Hann leitar hjálpar hjá lærimeistara sínum Harry Quebert, frægum rithöfundi, sem allir dá og elska. En það finnst lík í garði Harrys, af unglingsstúlku sem hvarf sporlaust 30 árum áður og nú snýst öll þjóðin gegn Harry.
Marcus ákveður að rannsaka málið með aðstoð lögreglunnar og skrifa um það í leiðinni og fyrr en varir er hann sokkinn á kaf í allskyns lygar, svik og undirferli. Hvað er rétt og hvað er rangt? Er vinur hans barnaperri og morðingi?
Ég sogaðist inn í þetta og var alltaf jafn hissa á því sem upp kom. Þetta er listilega vel fléttað og höfundi tekst að koma með nýjar hliðar hvað eftir annað og alltaf er maður viss um að nú sé þetta komið á hreint, nú geti þetta bara ekki klikkað.
Á tímabili fannst mér ég vera með TwinPeaks dæmið – unglingsstúlka, allskonar undirferli í smábæ.
Ég meira segja fletti höfundinum upp til að sjá hvort þetta gæti verið en auðvitað var það ekki rétt enda er þetta alls ekki líkt þegar upp er staðið en einhvern veginn jafn dásamlega klikkað og gjörsamlega dáleiðandi.
Ég stóð mig að því að vera farin að fletta mjög hratt og þá meina ég mjög hratt – mig langaði til að kíkja á endinn en sem betur fer gerði ég það ekki því það hefði ekki hjálpað neitt, heldur á þeim punkti ruglað mig enn meira.
Löng og dásamlega klikkuð saga sem ég mæli eindregið með. Fjórar og hálf stjarna.
[usr 4,5]
Anna Kristín Halldórsdóttir er með fimm háskólagráður (án gríns) og hefur m.a áhuga á ljósmyndum, tölvum, fötum og bókum. Hún býr í Hafnarfirði ásamt yndislegri dóttur sem fædd er í Kína og hressum hundi sem elskar útiveru.