Sandmaðurinn er fjórða spennubók Lars Kepler en það eru hjónin Alexandra og Alexander Ahndoril sem skrifa undir því nafni. Bækur þeirra eru gefnar út í 39 löndum og verið er að gera þrjár kvikmyndir eftir bókunum.
Aðal söguhetjan er Joona Linna finnskættaður lögreglumaður í Svíþjóð. Hann er sannfærður um að fjöldamorðinginn Jurek Walter sem situr í einangrun á geðsjúkrahúsi sé alls ekki hættur og eigi sér vitorðsmann fyrir utan múrana.
Í upphafi sögunnar birtist Mikael Kohler-Frost illa til reika og fárveikur á járnbrautarteinum. Það undarlega við hann er að hann var opinberlega lýstur látinn sjö árum áður og hafði þá verið horfinn í 13 ár, eða frá því hann var tíu ára gamall.
Hann hvarf ásamt systur sinni og Joona hefur alla tíð verið sannfærður um að Jurek Walter hafi rænt þeim þó aldrei hafi neitt fundist sem studdi þá kenningu hans. En hvernig losnaði Mikael og hver sá um hann öll árin sem Jurek hefur setið í einangrun?
Og hvar er systir hans? Er hún dáin eða er hún enn fangi siðblindra glæpamanna? Það er bara einn maður sem getur svarað þessu og hann vill ekki tala. Það verður því að reyna að gabba hann til að segja frá en í kapphlaupi við tímann því ljóst er að ef stúlkan er enn á lífi þá er mikið af henni dregið. Og þar með hefst kapphlaupið við tímann.
Jurek er svo geðveikur að það rísa á manni hárin við að lesa um hann og ekki er unglæknirinn skárri sem á að heita geðlæknir það fer hrollur um mann við að lesa um þessa tvo menn sem eru sitt hvoru megin við glerið á geðdeildinni; annar er sjúklingurinn og hinn er læknir en hver er munurinn á þeim í raun og veru þegar búið er að flysja ysta lag siðmenningarinnar frá?
Óheyrilega spennandi bók sem heldur manni við efnið allan tímann og gott betur en það. Það er ekki laust við að þegar bókinni er lokað að maður vilji ganga á alla glugga og athuga hvort það er ekki örugglega allt lokað og læst og barnið örugglega í rúminu.
Þetta er bók í hæsta gæðaflokki að mínu mati.
[usr 5.5]
Anna Kristín Halldórsdóttir er með fimm háskólagráður (án gríns) og hefur m.a áhuga á ljósmyndum, tölvum, fötum og bókum. Hún býr í Hafnarfirði ásamt yndislegri dóttur sem fædd er í Kína og hressum hundi sem elskar útiveru.