Rogastanz eftir Ingibjörgu Reynisdóttur er ágætis afþreying. Sagan fjallar um nútímafólk, vonir og væntingar. Inn í söguna blandast fjölmenningarheimurinn og árekstrar af ýmsum toga.
Þetta er bók um sambönd og þrá eftir samböndum. Ekkert sambandanna er þó nálægt því að flokkast undir það sem við venjulega köllum normal; ekki hin einhleypa Sara sem á samkynhneigðan besta vin og samkynhneigða bestu vinkonu sem er gift og á von á öðru barni sínu. Ekki heldur Borislav hinn groddalegi með eiginkonuna og hjásvæfuna.
Fyrst fór Sara í taugarnar á mér. Hún æddi í gegnum lífið, alltaf of sein og með áhyggjur að líkamsklukkunni sem skyndilega var varin að tifa svo hátt að hún var farin að trufla hana. Hún skánaði samt er á leið en kannski var það bara í samanburði við Borislav sem er svo yfirþyrmandi og eiginkonuna sem lætur ýmislegt yfir sig ganga.
Mér fannst þetta ágætis saga þrátt fyrir að mér væri farið að blöskra yfirgengilegt líf persónanna. Það er ekkert þar sem ég gat samsamað mér við.
Kannski helst hinn mjúki, sæti Rasmus sem reyndist þó hafa mjög áhugavert starf þegar betur var að gáð.
Þetta er eiginlega svona tilfinning, — að mig rekur í rogastanz.
Hefði kannski verið ágætt að tóna eina eða tvær persónur aðeins niður. Þetta er eiginlega dálítið eins og hver persóna sé að reyna að toppa þá næstu í skringilegheitunum.
Hún fær þrjár stjörnur frá mér því hún er ágætis afþreying [usr 3,0]
Anna Kristín Halldórsdóttir er með fimm háskólagráður (án gríns) og hefur m.a áhuga á ljósmyndum, tölvum, fötum og bókum. Hún býr í Hafnarfirði ásamt yndislegri dóttur sem fædd er í Kína og hressum hundi sem elskar útiveru.